Enski boltinn

Atvinnulausa EM-stjarnan eftirsótt | Gæti orðið samherji Gylfa Þórs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hal Robson-Kanu gæti fengið stoðsendingar frá Gylfa Þór á næstu leiktíð.
Hal Robson-Kanu gæti fengið stoðsendingar frá Gylfa Þór á næstu leiktíð. vísir/getty
Hal Robson-Kanu, framherji velska landsliðsins, verður ekki atvinnulaus mikið lengur eftir frábæra frammistöðu með Wales á Evrópumótinu í Frakklandi.

Robson-Kanu var á mála hjá Reading frá 2007 og þar til í ár eða allan sinn atvinnumannaferil. Reading ákvað að framlengja ekki samning hans eftir síðasta tímabil og fór hann því atvinnulaus til Frakklands.

Robson-Kanu skoraði tvö mörk fyrir Wales á EM, annað í riðlakeppninni gegn Slóvakíu og annað í fræknum sigri Walesverja gegn Belgíu í átta liða úrsiltum og nú syndir hann í tilboðum.

Fram kemur á vef Sky Sports að kínversku liðin Beijing Guaoan og Jiangsu Suning séu bæði tilbúiin að greiða honum fimm milljónir punda í árslaun sem er töluvert meira en hann fékk hjá Reading. Íslendingarnir Sölvi Geir Ottesen og Viðar Örn Kjartansson spiluðu báðir fyrir Jiangsu á síðustu leiktíð.

Al Jazira Club í Abu Dhabi vill einnig fá þennan 27 ára gamla framherja í sínar raðir en sjálfur vill hann spila í ensku úrvalsdeildinni. Umboðsmenn hans eru í viðræðum við Watford, Hull og Gylfa Þór Sigurðsson og félaga í Swansea. Þeim viðræðum verður haldið áfram á næstu vikum.

Steve Bruce, knattspyrnustjóri Hull, er mjög áhugasamur um að fá Robson-Kanu til liðs við sig og segir að það sé ekki bara vegna árangursins á EM.

„Hann stóð sig frábærlega á EM en maður kaupir ekki leikmenn út af frammistöðu á einu móti. Við höfum vitað í nokkur ár hversu góður hann er,“ sagði Bruce í viðtali við Sky Sports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×