Innlent

Atvinnubílstjórar vinna að stofnun stéttarfélags

Atvinnubílstjórar og vélamenn berjast nú fyrir bættum kjörum og réttindum og hefur hópur verið skipaður þar sem unnið er að stofnun nýs stéttarfélags. Hjörleifur Guðmundsson, stofnandi hópsins, segir að fyrsta skrefið sé ganga inn í bifreiðafélagið Sleipni. Þá verði nafni félagsins breytt og  byggt verði upp nýtt stéttarfélag á grunni þess. Hann segir ósætti ríkja vegna bifreiðafélagsins. Það sé nauðsynlegt að stofna nýtt stéttarfélag, svo hægt sé að sameina alla stéttina á einn stað.

„Hver sem er getur stofnað stéttarfélag – og það er það sem við stefnum á. Fólk er mjög ósátt við Sleipni. Vinnuveitendur eru meira að segja farnir að hóta brottrekstri ætli fólk að ganga í það félag.“

Stéttin hefur minnkað töluvert eftir hrun, fjölmargir hafi flutt erlendis, og segir Hjörleifur að með þessu, bættum kjörum og réttindum, gæti þetta spornað við því að fólk flytjist út og fái fólk jafnvel til þess að koma aftur heim. 

Ekki er ljóst hvernig verkefnið verður fjármagnað en Hjörleifur segir að unnið verði markvisst að því næstu vikur að setja félagið á laggirnar. Rúmlega 300 manns hafa skráð sig í hópinn sem stofnaður var síðastliðinn fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×