Körfubolti

Atvikin í gær sem Snæfellingar eru brjálaðir yfir | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukakonur eru komnar í 2-1 í úrslitaeinvígi sínu á móti Snæfelli og þar með í lykilstöðu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í Domino´s deild kvenna í körfubolta.

Haukar unnu þriðja leikinn í framlengingu á Ásvöllum í gærkvöldi þar sem þrjú umdeild atvik féllu öll með Haukaliðinu á lokakafla leiksins.

Fyrst virtist Pálína Gunnlaugsdóttir komast upp með það að slá í hönd Bryndísar Guðmundsdóttur þegar Bryndís er að taka við boltanum eftir innkast. Bryndís missir boltann útaf en þá var staðan 69-67 fyrir Snæfell og aðeins tíu sekúndur voru eftir af leiknum. Þetta sést í myndbandinu hér fyrir ofan.

Bryndís fékk hvorki villu né annað innkast því dómararnir dæmdu Haukum boltann. Helena Sverrisdóttir jafnaði leikinn nokkrum sekúndum síðar.

Annað atvikið er þegar Auður Ólafsdóttir stígur fyrir Gunnhildi Gunnarsdóttur þegar Gunnhildur keyrir að körfunni í lokasókn venjulegs leiktíma. Ekkert var dæmt en Gunnhildur hefði fengið tvö víti ef dómararnir hefðu dæmt brot. Aðeins rúm ein sekúnda var eftir af leiknum þegar þær lenda saman og staðan var þá 69-69.

Þriðja umdeilda atvikið er síðan þegar Auður Ólafsdóttir stelur boltanum af Gunnhildi með því að sparka í boltann þegar Gunnhildur ætlaði að rekja hann framhjá henni. Auður lyftir fætinum og sparkar honum fram völlinn þar sem hún nær honum áður en boltann fór útaf vellinum. Þetta gerðist í framlengingu þegar Haukar voru einu stigi yfir.

Snæfellingar voru allt annað en sáttir með þessi þrjú atvik og dæmi nú hver fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×