Fótbolti

Atvikið sem kostaði Pique ferilinn hjá United: „Ég vissi á því augnabliki að ég hafði misst trú Sir Alex“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pique og Sir Alex á góðri stundu
Pique og Sir Alex á góðri stundu vísir/getty
„Ég get enn séð boltann fyrir mér fljúgandi í loftinu,“ sagði Gerard Pique þegar hann rifjar upp augnablikið sem batt enda á feril hans hjá Manchester United.

Pique hefur verið einn besti varnarmaður heims undanfarin ár. Hann hefur unnið heims- og Evrópumeistaratitil með Spánverjum, unnið allt sem hægt er að vinna heima fyrir með Barcelona og Meistaradeild Evrópu. En hann á líka að baki Englandsmeistaratitil og Evrópumeistaratitil með Manchester United.

Spánverjinn yfirgaf herbúðir Barcelona 17 ára gamall og fór til Englands árið 2004. Lífið í Englandi var erfitt fyrir hjá Pique en árið 2007 lofaði Sir Alex Ferguson, þáverandi stjóri United, að hann fengi um 25 leiki það tímabil.

„Allt byrjaði vel. Ég fékk að spila svolítið við hlið Rio [Ferdinand]. Svo, í nóvember, fórum við að spila í Bolton,“ skrifar Pique í grein sinni í The Players Tribune.

„Þetta var fast leikatriði. Ég átti að vera að passa Nicolas Anelka. Bolton vippaði boltanum inn í teiginn og ég hugsaði: „Ég ætla að vera aggressívur.““

„Ég hoppaði upp til þess að skalla boltann í burtu en ég missti alveg af honum. Þetta var eins og beint úr martröð. Boltinn hélt bara áfram. Þetta var þessi guli og fjólublái úrvalsdeildarbolti, munið þið?. Hann flaut framhjá höfðinu á mér eins og blaðra.“

Anelka náði boltanum og skoraði eina mark leiksins. United tapaði og það var Pique að kenna.

„Sem ungur varnarmaður, ef þú gerir slík mistök þá getur stjórinn ekki treyst þér lengur. Þó hann vilji það, þá getur hann það ekki. Ég vissi á því augnabliki að ég hafði misst trú Sir Alex og líklegast trú flestra stuðningsmanna United.“

Pique spilaði 12 leiki fyrir United þetta tímabil og var svo seldur aftur til Barcelona. Hann á þó ekkert nema gott að segja um Sir Alex og sagði hann vera eins og faðir númer tvö.

„Ég kom til Manchester United sem strákur og fór þaðan fullorðinn maður.“

Úrtak úr frásögn Pique má sjá í myndbandinu hér að neðan. Frásögn hans í heild sinni má lesa hér, en þar talar hann meðal annars um Lionel Messi og lýsir atviki í búningsklefa United þar sem hann hélt Roy Keane ætlaði að ganga frá sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×