Lífið

Áttu erfitt með að vakna? Þetta rúm er þá lausnin fyrir þig

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Colin Furze er ekki að grínast.
Colin Furze er ekki að grínast. vísir/skjáskot
„Hver sá sem er ennþá sofandi eftir að þetta fer í gang er ekki mennskur,“ segir uppfinningamaðurinn Colin Furze sem á dögunum lauk smíði á því sem hann kallar „High Voltage Ejector Bed“ – sem lauslega mætti þýða Háspennukastrúmið.

Rúmið er ætlað öllum þeim sem eiga erfitt með að fara á fætur á morgnanna en Furze tjaldaði öllu til við gerð rúmsins.

Ekki einungis rís það með þeim afleiðingum að sá sem þar liggur kastast úr rúminu heldur hringja bjöllur og lúðrar blása þegar klukkan gellur.

Furze segir í samtali við vefmiðilinn Mashable að smíði rúmsins hafi einungis tekið hann um tvær vikur. Það hafi virkað frá fyrstu tilraun og að sögn Furze hefur hann í hyggju að betrumbæta rúmið enn frekar svo að það klæði og mati einnig notandann.

Þetta er ekki fyrsta uppátæki uppfinningamannsins en Furze hefur áður gert garðinn frægan fyrir myndbönd þar sem hann meðal annars kveikti á 300 flugeldum í einu og skaut af heimatilbúnum eldvörpum. Hér að neðan má sjá myndband frá smíði fyrrnefnds tryllitækis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×