Handbolti

Áttu að dæma á Seltjarnarnesi en fóru á Selfoss

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þorleifur Árni fór í óvænta ferð á Selfoss. Hann staldraði stutt við.
Þorleifur Árni fór í óvænta ferð á Selfoss. Hann staldraði stutt við. vísir/stefán & Pjetur
„Þetta var eins og Árni Johnsen segir. Tæknileg mistök," segir handboltadómarinn Þorleifur Árni Björnsson en hann fór í lengri bíltúr í gær en til stóð.

Hann átti að dæma leik Gróttu og Mílan út á Seltjarnarnesi í gær ásamt Ingvari Guðjónssyni. Þeir félagar misskildu þó málið eitthvað og keyrðu alla leið inn á Selfoss.

„Við áttum upprunalega að dæma þennan leik á Selfossi en svo var búið að skipta okkur á annan leik. Það fór bara algjörlega fram hjá okkur," segir Þorleifur og bætir við að þeir hafi verið í mestu makindum á Selfossi er þeir komust að sannleikanum.

„Við vorum snemma í því og tókum því rúnt á Selfossi. Þegar við erum að keyra þar þá er hringt í okkur af Nesinu og spurt hvort við ætlum ekki að mæta. Við brunuðum þá af stað til baka."

Leiknum seinkaði um 45 mínútur á Nesinu vegna misskilningsins og þurftu liðin að hita tvisvar upp.

„Menn brostu bara þegar við mættum. Allir léttir og ekkert vesen. Það getur alltaf komið fyrir að menn klikki aðeins."

Grótta vann svo öruggan sigur í leiknum, 37-22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×