Golf

Átti ekki von á því að fara að gráta

Day með tárin í augunum á 18. flötinni.
Day með tárin í augunum á 18. flötinni. vísir/getty
Ástralinn Jason Day vann sögulegan sigur á PGA-meistaramótinu í gærkvöldi.

Þetta var fyrsti sigur Day á risamóti og það sem meira er þá setti hann met. Hann kom í hús á 20 höggum undir pari en metið var 19 högg undir pari á risamóti.

Hann sló því bæði Tiger Woods og Jordan Spieth við þar og það sem meira er þá gerði hann það á einum erfiðasta velli Bandaríkjanna, Whistling Straits.

Day hafði níu sinnum verið á topp tíu á risamóti og þar af sex sinnum á topp fjórum. Nú fór hann loksins alla leið.

Er Day kom upp á 18. flötina og hann áttaði sig á því hvað væri að gerast réð hann ekki við sig og grét áður en hann kláraði holuna.

„Ég átti ekki von á því að ég myndi fara að gráta. Tilfinningarnar brutust út því ég hef svo oft verið nálægt þessu en aldrei tekist það áður," sagði Day er hann hafði jafnað sig aðeins.

Jordan Spieth varð annar og reyndi að setja pressu á Day en honum var ekki haggað. Hann spilaði öruggt golf og gaf engin færi á sér.

„Að spila svona vel á erfiðum velli með Jordan á eftir mér var frábært. Það áttu flestir von á því að hann myndi vinna. Ég gæti ekki beðið um meira og er afar hamingjusamur."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×