Sport

Átta prósent Íslendinga vilja á EM

Samúel Karl Ólason skrifar
Íslenskir áhorfendur á Laugardagsvelli í sumar.
Íslenskir áhorfendur á Laugardagsvelli í sumar. Vísir/Ernir
Íslendingar hafa sótt um 26.985 miða á leiki á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar. Það samsvarar um 8,15 prósentum Íslendinga. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, virðist ánægt með áhugann og bendir á að þetta samræmist því að 6,6 milljónir Þjóðverja sæktu um miða.

„Ísland hefur sýnt ástríðu fyrir UEFA EURO 2016 sem á sér ekki hliðstæðu, þar sem aðdáendur hafa sótt um þann fjölda miða í gegnum UEFA.com sem samsvarar rúmlega átta prósentum þjóðarinnar,“ segir á vef UEFA.

Hafa verður þó í huga að líklega hafa ekki átta prósent Íslendinga sótt um miða, heldur hafi margir sótt um miða á fleiri en einn leik og jafnvel alla.

Ísland er fámennasta þjóðin sem mun hafa tekið þátt í lokastigi mótsins og á vef UEFA segir að árangur landsliðsins sé ótrúlegur. Íslendingar séu færri en einn fimmti af Norður-Írum, sem er næst fámennasta þjóð mótsins.

Þá sé 23 manna lið Íslands um 0,007 prósent af þjóðinni, sem samsvari því að í hópi Rússa væru fleiri en tíu þúsund leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×