Innlent

Átta mánaða skilorð fyrir kynferðisbrot gegn fjórtán ára stúlku

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Karlmaður var dæmdur fyrir að hafa strokið yfir brjóst og ber kynfæri fjórtán ára stúlku á heimili hans á Akureyri þann 10. nóvember 2012. Hann var sýknaður af því að láta hana strjúka yfir kynfæri sín og að hafa sett fingur í leggöng stúlkunnar.

Þegar atvikið átti sér stað var hann 19 ára og stúlkan var 14 ára og tíu mánaða gömul. Nú er maðurinn 21 árs gamall. Við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Norðurlands eystra féll ákæruvaldið frá því sakaratriði að maðurinn hafi reynt að hafa samfarir við stúlkuna.

Játaði hluta sakargifta

Hann játaði að hafa káfað á brjóstum stúlkunnar og að hafa strokið ber kynfæri hennar. Hins vegar neitaði hann að hafa látið hana strjúka kynfæri sín og að hafa sett fingur í leggöng hennar. Hann viðurkenndi þó að hafa vitað að stúlkan væri einungis 14 ára gömul. Hann staðhæfði þó að hann hafi haldið að aldursmörk kynferðislegra samskipta miðuðust við 15 ára aldur. Því hefði hann talið sig ekki vera að gera neitt rangt.

Dóminum þótti sannað að maðurinn hafi látið stúlkuna koma örstutt við kynfæri sín. „En eins og hann og stúlkan lýsa atvikinu verður það ekki metið svo að sú athöfn hafi verið til þess fallin almennt að veita honum kynferðislega fullnægingu,“ segir í dómnum.

Þá þótti ekki sannað til fullnustu að hann hafi sett fingur í leggöng hennar og var hann sýknaður af því.

Maðurinn var dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar, skilorðsbundnar til þriggja ára. Honum var gert að greiða hálfa milljón króna í miskabætur og að greiða einn þriðja sakarkostnaðar að fjárhæð 1.413.560 krónur.

Við geðræn vandamál að stríða

Maðurinn er með skerðingu á ýmsum sviðum samkvæmt doktor og sérfræðingur í klínískri taugasálfræði, en þar er um að ræða alvarlegan fylgikvilla geðhvarfasjúkdóms hans. Vegna veikindanna hafði hann ítrekað verið lagður inn á geðdeild og var hann úr tengslum við raunveruleikann.

Geðlæknir sem framkvæmdi geðrannókn á manninum sagði fangelsisvist gæti verið honum mjög skaðleg. Hann var þó metinn sakhæfur og er sagður vera að ná sér á strik.

„Að mati undirritaðs hefur [X] ekki verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands sem hefur orsakað að hann væri alls ófær að stjórna gerðum sínum síðari hluta árs 2012. Hitt er ljóst að hann hefur verið alvarlega veikur af geðhvarfasjúkdómi á tveimur sjúkdómstímabilum með geðrofseinkennum sem hefur haft taugasálfræðilegar afleiðingar eins og fram kemur í þessu mati. Af þeim sökum er það mat undirritaðs að með vísan til 16. gr. almennra hegningarlaga að refsing í formi fangelsisvistar geti ekki borið árangur og verulegar líkur eru á því að slík refsing væri honum beinlínis skaðleg.“

Leiddi til vanlíðan stúlkunnar

Stúlkan fór í fjögur viðtöl við starfsmenn Barnahúss þar sem hún skýrði frá vanlíðan sem hún tengdi við upplifun sína. Að miklu leyti kenndi hún sjálfri sér um það gerðist. Í vottorði sem sálfræðingur áritaði fyrir stúlkuna er látið í ljós að brotið hafi haft slæm áhrif á líðan hennar um tíma, þótt henni hafi gengið ágætlega að takast á við afleiðingarnar.

„Í lokaorðum vottorðsins segir að þolendur kynferðisbrota glími oft við afleiðingar þeirra á hinum ýmsu skeiðum lífsins, til dæmis í tengslum við önnur áföll, kynlíf, meðgöngu og fæðingar og því sé ekki hægt að útiloka að A muni síðar á lífsleiðinni hafa þörf fyrir sérhæfða sálfræðiaðstoð.“

Dóminn má sjá hér á heimasíðu Héraðsdóms Norðurlands eystra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×