Innlent

Átta dauðsföll vegna alvarlegra atvika sem urðu á Landspítala

Sveinn Arnarsson skrifar
Í skýrslu Landspítalans um starfsemi árið 2016 kemur fram að fimmtán svokölluð „óvænt dauðsföll“ hafi verið skráð í bækur spítalans það ár.
Í skýrslu Landspítalans um starfsemi árið 2016 kemur fram að fimmtán svokölluð „óvænt dauðsföll“ hafi verið skráð í bækur spítalans það ár. vísir/vilhelm
Af þeim fimmtán óvæntu dauðsföllum sjúklinga á Landspítalanum árið 2016 eru átta dauðsföll rakin til mistaka sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Fjöldi dauðsfalla af þessum sökum hefur verið svipaður síðustu ár.

Elísabet Benedikz yfirlæknir. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Í skýrslu Landspítalans um starfsemi árið 2016 kemur fram að fimmtán svokölluð „óvænt dauðsföll“ hafi verið skráð í bækur spítalans það ár. Sjö dauðsföllin eru vegna náttúrulegra orsaka að mati Elísabetar Benedikz, yfirlæknis gæða- og sýkingavarnardeildar spítalans. Til að mynda hafa einstaklingar lagst inn vegna krabbameins en látist af sökum hjartaáfalls. Er það talin vera náttúruleg orsök.

Hin átta tilvikin eru af öðrum toga að mati Elísabetar. „Þetta eru alvarleg atvik í þjónustunni, sem hefði líklega mátt koma í veg fyrir og leiddu beint eða óbeint til dauða sjúklings,“ segir Elísabet. „Helstu ástæður eru mannlegir þættir en heilbrigðisþjónusta hvílir mjög mikið á mannlegum þáttum, sem eru ófullkomnir. Hin meginástæðan eru kerfisþættir, gallar í skipulagi starfseminnar og fyrirkomulagi þjónustunnar.“

Elísabet segir löndin sem við berum okkur saman við vera á svipuðum stað hvað þetta varðar. „Við erum með sama hlutfall alvarlegra atvika og erum að kljást við alveg sömu vandamál og þau. Þannig að við skerum okkur ekki úr að þessu leyti. “

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×