Erlent

Tvítugur bróðir barnanna kom að þeim látnum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Lögreglan lokaði svæðið af og hafði mikinn viðbúnað.
Lögreglan lokaði svæðið af og hafði mikinn viðbúnað. vísir/ap
Átta látin börn og illa særð móðir sjö þeirra fundust á heimili í borginni Cairns í Queensland-ríki Ástralíu. Yngsta barnið var 18 mánaða gamalt en hið elsta fimmtán ára. Áttunda barnið var skyldmenni þeirra.

Það var tvítugur bróðir systkinanna sjö sem kom að þeim. Móðirin var sögð þungt haldin af stungusárum en lögreglan lét ekkert uppi um það hvernig dauða barnanna hefði borið að höndum.

Móðirin var flutt á sjúkrahús og var ástand hennar sagt stöðugt. Síðdegis í gær var hún orðin nógu hress til að geta aðstoðað lögregluna við að varpa ljósi á málið.

Lögreglan vildi heldur ekkert gefa upp um það hver væri grunaður um voðaverkið. Samt tók lögreglan skýrt fram að nágrannar eða aðrir í Ástralíu þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur af því að morðinginn léki lausum hala. Enginn væri í hættu staddur.

„Sem stendur er engin ástæða fyrir almenning til að hafa áhyggjur af þessu, fyrir utan þá staðreynd að þetta er afar sorglegur atburður,“ hafði AP-fréttastofan eftir Bruno Asnicar rannsóknarlögreglumanni.

Nálægt húsinu var fólk byrjað að skilja eftir blómvendi til minningar um börnin.vísir/afp
Það var Lisa Thaydai, skyldmenni fjölskyldunnar, sem skýrði fjölmiðlum frá því að það hefði verið tvítugi bróðirinn sem kom að börnunum látnum og móður sinni með veiku lífsmarki.

„Ég ætla að fara að tala við hann núna, hann þarf á hughreystingu að halda,“ sagði hún. „Við erum stór fjölskylda. Ég trúi þessu bara ekki.“

Tugir lögreglumanna unnu að rannsókn málsins á heimili fjölskyldunnar fram eftir degi í gær. Fjöldi nágranna stóð við lokunarborða lögreglunnar, sem strengdir voru yfir götuna, og fylgdist með því sem fram fór. Margir voru með tárin í augunum.

„Þessir atburðir hafa vitaskuld skelfileg áhrif á alla og lögreglumenn eru þar ekkert undanskildir – við erum mannlegir líka,“ sagði Ascinar.

Þessi harmleikur verður örfáum dögum eftir að vopnaður maður tók átján kaffihúsagesti í gíslingu í Sydney og hélt þeim þar flestum í sextán klukkustundir. Tveir gíslanna létu lífið og gíslatökumaðurinn sömuleiðis.

„Fréttirnar frá Cairns eru átakanlegar,“ sagði Tony Abbott forsætisráðherra í yfirlýsingu. „Þetta er ólýsanlegur glæpur. Þetta eru erfiðir dagar fyrir landið okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×