Lífið

Átta ára skartgripahönnuður

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Þó Ísabella sé aðeins átta ára er hún ansi hæfileikarík.
Þó Ísabella sé aðeins átta ára er hún ansi hæfileikarík. Mynd/Finnbogi Helgason
„Mér finnst skemmtilegast að fá hugmyndirnar, þær koma bara alls staðar frá,“ segir Ísabella Brekadóttir, því þrátt fyrir að vera aðeins átta ára er búin að hanna sína eigin hringalínu, en áhugann fékk hún frá pabba sínum, Breka Magnússyni gullsmið. „Ég held að mig langi að vera gullsmiður, eða svona „designer“ eins og mamma,“ bætir hún við.

„Hún er búin að vera að dúlla sér með pabba sínum á verkstæðinu síðan hún var fjögurra ára. Það er fyrst núna sem hún gerir þetta af alvöru,“ segir Gúrý Finnbogadóttir, fatahönnuður og mamma Ísabellu. 

Hringalína Ísabellu inniheldur ellefu hringa ýmist með hauskúpum eða trúðum. „Hún tekur grunninn frá pabba sínum, sem er úr vaxi en út frá því hannar hún sitt eigið alveg sjálf. Hún er alveg ótrúlega flink miðað við ungan aldur og það sem henni dettur í hug að gera er alveg magnað,“ segir hún og viðurkennir að oft veiti hún foreldrum sínum mikinn innblástur með hugmyndaflugi sínu og hæfileikum.

Hringana hannar hún undir nafninu Brekadóttir og eru hringarnir allir úr silfri. „Hún er nú þegar búin að selja tvo af þessum ellefu, en þeir verða allir til sýnis og sölu á sölusýningu okkar í dag að Grandagarði 33 á milli 18 og 22,“ segir Gúrý. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×