Innlent

Átröskunarsjúklingar leita meðferðar í útlöndum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Yfir hundrað konur leita til átröskunarteymisins árlega og margar fara til útlanda í sólarhringsmeðferð
Yfir hundrað konur leita til átröskunarteymisins árlega og margar fara til útlanda í sólarhringsmeðferð NORDICPHOTOS/AFP
Yfir hundrað sjúklingar, átján ára og eldri, leita til átröskunarteymis Landspítalans á Hvítabandinu á ári hverju.

Þar er boðið upp á meðferð á dagvinnutíma á virkum dögum, en lokað er um helgar og á frídögum og skert þjónusta á sumrin. Engin sólarhringsþjónusta er í boði fyrir átröskunarsjúklinga.

„Sem er ekki nógu gott því stór hluti okkar skjólstæðinga þyrfti það úrræði. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin þá erum við eina landið sem býður ekki upp á þetta úrræði," segir Elísabeth Inga Ingimarsdóttir, ráðgjafi í átröskunarteyminu.

Þórunn Sif Ólafsdóttir var veik af átröskun frá tíu ára aldri og leitaði aðstoðar þegar hún var orðin þrítug, þá orðin mjög veik. Hún á fjölskyldu, býr úti á landi og keyrði á virkum dögum í bæinn til að sækja meðferð á Hvítabandi í sjö vikur. Hún er þakklát fyrir meðferðina en það tók oft á að fara heim eftir tilfinningaþrunginn dag.

„Því sjúkdómurinn heldur áfram. Hann er ekki farinn heima, hann er þar líka en þar er enginn sem hjálpar. Þú þarft að borða kvöldmat, eftir að hafa verið í máltíðarstuðning allan daginn. Það eru fullt af áskorunum og erfitt að vera ekki með hjálpina í kringum sig í þeim aðstæðum," segir Þórunn.

Elísabeth tekur undir að það sé ekki nóg að fá stuðning hluta af degi. „Það er ekki eins og átröskunin hætti bara þegar dagvinnutíma er lokið."

Margir sem eru í sömu stöðu og Þórunn hafa leitað erlendis og farið í sólarhringsmeðferð þar.

„Það hefur í för með sér kostnað, og meðferðin fer fram á öðru tungumáli og viðkomandi fer frá sínu stuðningsneti og fjölskhyldu í langan tíma," segir Elísabeth og bendir á að stuðningsnetið sé mjög mikilvægt á meðan meðferð stendur. „Og það er bara ekki nógu gott að fara svona einn út, því það er ekki í boði að gera þetta hér. Þetta er bara fráleitt ef maður hugsar út i það." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×