Lífið

Átök yngri flokka þjálfara: Annar lét sig detta og hinn sagði „hættu að væla eins og kelling“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Schänker-höllin, íþróttahús Hauka við Ásvelli.
Schänker-höllin, íþróttahús Hauka við Ásvelli.
Eftir að leik Hauka og Vals í þriðja flokki kvenna lauk á mánudaginn hófst atburðarás sem dró dilk á eftir sér. Þjálfari Hauka, Jens Gunnarsson, fékk rautt spjald eftir samskipti sín við Arnar Daða Arnarson, þjálfara Valsstúlkna. Arnar féll í jörðina eftir samskiptin og viðurkennir að hafa látið sig detta.

Hann segir Jens hafa hrist sig til og að hann hafi verið „skíthræddur“ við Jens, sem er hávaxinn og sterkur maður. Jens segist ekki hafa hrist mótþjálfarann. „Ég tók í höndina á honum og lagði vinstri höndina á öxlina á hann," útskýrir hann, en hann fékk samt sem áður rautt spjald og leikbann fyrir vikið.

„Hann gekk mjög ógnandi að mér eftir leik. Ég veit ekki af hverju hann gerði þetta, mig langar mjög að vita af hverju," segir Arnar Daði og bætir við:

„Hann tók þéttingsfast í höndina á mér eins og þjálfarar gera. Síðan byrjaði hann að hrista mig til. Ég lét mig detta við það, ég viðurkenni það alveg. Enda var ég skíthræddur. Ég man lítið eftir því hvað gerðist eftir þetta, ég var í svo mikilli geðshræringu. Mér finnst það ekki skipta máli hvort ég hafi látið mig detta eða ekki. Þarna gengur þjálfari að manni og hristir mann. Mér finnst það ekki sæmandi framkoma."

„Hættu að væla eins og kelling“

Ástæða þess að þessi uppákoma í kjölfar leiksins á Ásvöllum hefur spurst út er væntanlega frétt sem birtist á miðlinum Fimmeinn.is Þar er farið yfir málsatvik og hlið Arnars Daða tekin skýrt fram. Jens segir að enginn frá miðlinum hafi haft samband við sig.

„Ég er nú ekki blaðamaður og ætla ekki að fara að skipta mér að fréttaflutningi manna þannig lagað. En maður hefði viljað geta sagt sína hlið á málinu."

Í fréttinni eru samskipti þjálfaranna tíunduð:

„Mikill hiti var bæði í leikmönnum og þjálfurum á meðan leik stóð. Arnar Daði er uppalinn í Haukum og þekktust því þjálfararnir og því extra mikill hiti í mönnum sem endaði samkvæmt heimildum Fimmeinn að Jens tók í Arnar Daðameð þeim afleiðingum að Arnar féll í gólfið en þess má geta að Jens er mjög stórvaxinn maður. Hann fékk umsvifalaust rautt spjald enda stóðu dómararnir í meters fjarðlægð frá atvikinu.

Það sem fólki blöskraði þó mest var það að Jens kallaði Arnar Daða „kellingu“ í miðjum leik og var það alls ekki við hæfi þar sem þeir þjálfa báðir stelpur“



Þegar Jens er spurður út í þetta, segir hann þetta ekki alveg vera sannleikanum samkvæmt. Hann segist ekki hafa tekið í Arnar og segist ekki hafa kallað hann kellingu. „Ég sagði honum að hætta að væla eins og kelling. Ég ætla ekki að fara í skilmerkingu á því hvort það sé eitthvað betra. En þetta var sagt í hita leiksins og ég er búinn að biðjast afsökunar. Ég sé eftir þessu. Svona eiga þjálfarar ekki að segja, sérstaklega ekki þegar þeir þjálfa kvennaflokka."

Arnar Daði segist ekki hafa heyrt hvað Jens sagði við sig þegar hann öskraði að honum. „Ég heyrði að hann var eitthvað að öskra á mig, en ekki hvað hann sagði nákvæmlega. Síðan fóru stelpurnar að segja mér þetta í miðjum leik. Og síðan ræddu foreldrar þetta eftir leikinn. Þetta fór bara inn um annað og út um hitt hjá mér. En auðvitað á maður ekki að nota þetta orð á niðrandi hátt og kalla það að öðrum þjálfara."

Jens segir að ástæða orðaskiptanna hafi verið að honum þótti Arnar vera að röfla ítrekað í dómurunum. Arnar segir að það geti vel verið rétt hjá Jens, en Arnar fékk gult spjald frá dómurum leiksins. „Ég tók því bara," útskýrir hann.

Baráttuleikur

Leikurinn skipti þessi tvö lið ansi miklu máli. Haukar voru í neðsta sæti og Valskonur í næst neðsta. „Þetta var þeirra möguleiki á að vinna leik í vetur og það var mikið undir," segir Arnar sem er uppalinn Haukamaður. Hann segir það kannski hafa farið í Jens hversu mikið hann fagnaði að leikslokum.

„Það var mikil spenna undir lokin. Þær áttu fríkast og gátu jafnað leikinn. Þær skoruðu, en fríkastið var tekið ólöglega. Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst þjálfurum Hauka að sannfæra dómaranna um að þær áttu að fá að taka fríkastið aftur. Þær skoruðu ekki og ég fagnaði innilega. Ég sá útundan mér að einn stjórnarmaður í Haukum brosti yfir því að ég fagnaði. Mig langaði vissulega að vinna þennan leik. En þá kom Jens gangandi mjög ógnandi að mér."

Arnar segir að útskýringarnar sem Jens gefi haldi ekki vatni. „Ef að hann hefði ekki verið ógnandi og æstur hefðu meðþjálfarar hans ekki dregið hann í burtu."

Arnar segir að vissulega hafi það haft áhrif að dómarar leiksins voru rétt um tvítugar konur sem voru að dæma hjá stúlkum sem eru 16 til 19 ára gamlar. Hann segir að HSÍ skaffi dómara í leiki í þriðja flokki karla en ekki þriðja flokki kvenna. „Maður finnur auðvitað til með svona ungum dómurum sem eru settir í svona aðstæður."

Biðst afsökunar á öllu mínu

„Það fer ekkert á milli mála, ég gerði mistök," segir Jens og bætir við:

„Ég hef viðurkennt það. Þetta er ekki framkoma sem á heima á íþróttavellinum. En ég neita því alfarði að hafa hent honum í gólfið."

Jens segir að það þurfi samt sem áður alltaf tvo til að deila. „En ég ætla ekkert að tjá mig um hann. Ég ætla bara að einbeita mér að mér. Ég viðurkenni mín mistök."

Stjórn Hauka sendi stjórn Valsmanna bréf vegna málsins.

„Ljóst er að annar þjálfari Hauka sýndi af sér óíþróttamannslega framkomu sem bæði hann og handknattleiksdeild Hauka harma og biðjast afsökunar á að hafi átt sér stað í hita leiksins. Er afsökunarbeiðni til Valsmanna, þ.m.t. viðkomandi þjálfara, leikmanna og aðstandenda, hér með komið á framfæri."

Í bréfinu er sagt að stjórn Hauka beri fullt traust til Jens og að þetta hafi ekki verið líkamsárás eins og einhverjir hafi haldið fram. Er þá væntanlega verið að vísa til fréttarinnar sem birtist á fimmeinn.is, en í upprunalegu útgáfu fréttarinnar var því haldið fram að þetta hefði verið líkamsárás. Allir málsaðilar eru sammála um að svo var alls ekki.

Mætast aftur á morgun

Þeir Arnar og Jens mætast aftur á morgun, þegar b-lið þriðja flokks mætast að Ásvöllum. Leikurinn ætti því að vera hinn fjörugasti.

„Þetta verður í fyrsta sinn sem við hittumst eftir þetta," segir Jens um leikinn á morgun. Í kvöld munu Haukar funda um málið, þar sem farið verður fyri viðbrögðin við því og hvað megi læra af þessu atviki.

„Ég vona að við getum bara grafið þetta," segir Arnar sem ætlar að mæta á Ásvelli á morgun. Við þekkjumst alveg og ræðum oft saman. Ég vona að leikurinn fari bara vel fram."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×