Innlent

Átök í fjölbýli í Breiðholti: „Áður en ég vissi af lá ég í jörðinni rotaður“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Halldór hlaut áverka á höfði, alls fjóra skurði og sauma þurfti þrjú spor í tvo þeirra.
Halldór hlaut áverka á höfði, alls fjóra skurði og sauma þurfti þrjú spor í tvo þeirra. vísir
Til átaka kom í íbúðarhúsi við Grýtubakka 18 í Breiðholti í dag. Tveir menn brutu sér leið inn í blokkina og hugðust sækja sér einhverja muni í geymsluna. Halldór Pétur Ásbjörnsson, húsráðandi í blokkinni, varð var við mennina er hann var á leið til vinnu um klukkan hálf sjö í morgun. Þeir voru þá klæddir í föt af honum úr geymslunni.

Barinn með áhaldi í höfðið

„Þetta voru gömul vinnuföt af mér sem ég þekkti. Ég tók upp símann og ætlaði að hringja á lögreglu en þá gekk annar þeirra beint að mér mér og ég lenti í áflogum við hann og náði að lokum að slá hann niður. Þá kom hinn aftan að mér og lamdi mig í hausinn með einhverju áhaldi. Hann sá ég aldrei. Þeir héldu áfram að sparka í mig og áður en ég vissi af lá ég í jörðinni, rotaður,“ segir Halldór Pétur í samtali við Vísi.

Halldór hlaut áverka á höfði, alls fjóra skurði og sauma þurfti þrjú spor í tvo þeirra. Annar árásarmannanna hlaut áverka á nefi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fannst annar þeirra skammt frá vettvangi og hinn gaf sig fram til lögreglu síðar í dag. Þeim var sleppt að yfirheyrslum loknum. Þeir hafa áður komið við sögu lögreglu.

Þakkar fyrir að barnið hafi ekki vaknað

Halldór segist hafa orðið fyrir miklu áfalli og þakkar fyrir að tveggja ára sonur hans hafi ekki vaknað við lætin. Hann segir íbúa blokkarinnar hafa vaknað við lætin en ekki áttað sig á alvarleika málsins.

„Þetta var hrikalegt. Ég var bara einn þarna en er því líka feginn, því ég er ekki viss um að hver sem er hefði getað tekist á við þetta. Nágrannarnir héldu í fyrstu að það væru flutningar í gangi en konan mín kom hlaupandi og sá mig liggjandi í gólfinu og hringdi á lögregluna,“ segir hann.

Hann segist þó hafa það fínt núna en ætlar að kæra mennina. Boðað hefur verið til húsfundar vegna málsins sem hófst á áttunda tímanum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×