Erlent

Átök hafin aftur í Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Fregnir hafa borist af hörðum bardögum í austurhluta Aleppo eftir að þriggja daga vopnahléi lauk þar í gærkvöldi. Rússar tilkynntu einhliða vopnahlé í síðustu viku svo hægt væri að flytja særða og veika á brott úr borginni og að íbúar gætu flúið.

Rússar segja að vígamenn innan borgarinnar, sem er í haldi uppreisnarmanna að mestu, hafi komið í veg fyrir flótta borgara og að aðstoð hafi borist. Sameinuðu þjóðirnar segjast ekki hafa tekið að flytja neinn frá borginni þar sem ekki var hægt að tryggja öryggi starfsmanna þeirra.

Sameinuðu þjóðirnar telja að um átta þúsund uppreisnarmenn séu í borginni auk um 900 vígamanna Nusra front, sem eru hryðjuverkasamtök með tengsl við al-Qaeda.

Samkvæmt BBC segja uppreisnarmenn að þeir fáu sem hafi reynt að yfirgefa Aleppo hafi orðið fyrir stórskotaárás og hafi þurft að snúa við.

Harðir bardagar hafa geisað í Aleppo frá árinu 2012 og hefur borginni verið skipt á milli stjórnarliða Bashar al-Assad og stuðningsmanna hans annars vegar og uppreisnarmanna hins vegar. Í byrjun september var síðustu birgðaleið uppreisnarmanna lokað og hefur umsátursástand ríkt síðan.

Rússar og stjórnarher Sýrlands hafa staðið fyrir umfangsmiklum loftárásum á austurhluta borgarinnar, þar sem uppreisnarmenn ráða ríkjum, undanfarnar vikur og hafa fjölmargir almennir borgarar látið lífið. Þá hefur stjórnarherinn gert árás á borgina á jörðu niðri.

Sameinuðu þjóðirnar sögðu á föstudaginn að loftárásirnar og umsátrið um Aleppo væru „glæpir“ og kallað var eftir því að alþjóðasamfélagið myndi binda enda á ástandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×