Íslenski boltinn

Atli Viðar er að hugsa alvarlega um það að yfirgefa FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Viðar Björnsson í leik á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar.
Atli Viðar Björnsson í leik á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar. Vísir/Daníel
Atli Viðar Björnsson, leikjahæsti og markahæsti leikmaður FH í efstu deild, gæti verið á förum frá félaginu sem hann hefur spilað með frá 2001.

„Ég er að verða samningslaus um áramótin og ég veit ekki hvað tekur við þá. Eina sem ég get sagt núna er að ég er ekki á því að hætta í fótbolta alveg strax," sagði Atli Viðar við Fótbolta.net í dag.

Atli Viðar skoraði 8 mörk í 18 leikjum með FH í Pepsi-deildinni í sumar en hann byrjaði ekki einn leik eftir 11. ágúst og fékk bara 72 mínútur samanlagt í síðustu átta umferðunum.

„Ég er alvarlega að íhuga það hvort nú sé rétti tíminn fyrir mig að yfirgefa FH. Það að spila fótbolta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og því ætla ég að gefa mér góðan tíma til að hugsa mig um en þetta kemur líklega allt í ljós á næstu vikum," sagði Atli Viðar ennfremur.

 Atli Viðar Björnsson hefur skorað 98 mörk í 205 leikjum með FH í efstu deild en hann hefur orðið sex sinnum Íslandsmeistari með félaginu: 2004, 2005, 2006, 2008, 2009 og 2012.

Atli Viðar hefur nú skorað 8 mörk eða fleiri á sex tímabilum í efstu deild og hafa þau öll dottið inn á síðustu sjö sumrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×