Fótbolti

Atlético Madrid kaupir markahæsta mann Sevilla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gameiro vann Evrópudeildina í þrígang með Sevilla.
Gameiro vann Evrópudeildina í þrígang með Sevilla. vísir/epa
Atlético Madrid hefur fest kaup á franska framherjanum Kevin Gameiro. Hinn 29 ára gamli Gameiro kemur frá Sevilla þar sem hann hefur leikið við góðan orðstír undanfarin ár.

Talið er að Atlético Madrid hafi borgað um 28 milljónir punda fyrir Gameiro sem skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið.

Gameiro kom til Sevilla frá Paris Saint-Germain árið 2013 og sló í gegn með Andalúsíuliðinu. Frakkinn skoraði alls 67 mörk í 140 leikjum fyrir Sevilla en hann vann Evrópudeildina öll þrjú tímabil sín með liðinu.

Til að fylla skarð Gameiro fékk Sevilla argentínska framherjann Luciano Vietto á láni frá Atlético Madrid út tímabilið. Sevilla á svo forkaupsrétt á honum að tímabilinu loknu.

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético Madrid, hefur styrkt sóknarleikinn í sumar en auk Gamieros er Argentínumaðurinn Nicolás Gaitán kominn til liðsins.

Atlético Madrid endaði í 3. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og komst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið tapaði fyrir Real Madrid í vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×