Erlent

Atkvæðagreiðsla stöðvuð í Venesúela

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. Vísir/AFP
Yfirvöld í Venesúela hafa stöðvað söfnun undirskrifta fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu gegn Nicolas Maduro, forseta landsins. Stjórnarandstaða landsins sakar yfirvöld þar um einræðistilburði. Þá hefur leiðtogum andstöðunnar verið bannað að yfirgefa landið.

Venesúela glímir nú við gífurlegan efnahagsvanda, skort og glæpi. Andstaðan hefur staðið fyrir undirskriftasöfnun til að koma Maduro frá völdum. Maduro, sem tók við stjórnartaumunum af Hugo Chavez fyrir þremur árum, hefur átt undir högg að sækja.

Hefði andstöðunni tekist að safna undirskriftum gætu þeir boðað til nýrra forsetakosninga. Kannanir sýna að Mudor hefði líklegast tapað þeim kosningum. Yfirstjórn kosninga í Venesúela hefur nú stöðvað undirskriftasöfnunina. Við ákvörðunina var vitnað í úrskurði dómstóla.

Sjá einnig: Sjálf­skapar­víti Venesúela: Sósíalíska drauma­ríkið sem koll­varpaðist í mar­tröð.

Samkvæmt Reuters hefur stjórnarflokkurinn sakað stjórnarandstöðuna um svindl við fyrri öflun undirskrifta.

Ástæða þess að stjórnarandstaðan leggur mikið upp úr því að safna undirskriftunum og boða til kosninga eins fljótt og auðið er, er að verði þjóðaratkvæðagreiðslan á næsta ári og Maduro tapar, þá tekur varaforseti hans við samkvæmt stjórnarskrá landsins. Ekki yrðu haldnar nýjar kosningar. Sósíalistar hafa stjórnað landinu í 17 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×