Viðskipti innlent

Atkvæðagreiðsla SGS tók kipp eftir launahækkun stjórnarmanna HB Granda

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Atkvæðagreiðslan um verkfallsaðgerðir hjá Starfsgreinasambandinu tók kipp eftir fréttir af launahækkunum stjórnarmanna hjá HB Granda. Framkvæmdastjóri sambandsins segir hækkunina efla sitt fólk í kjarabaráttunni enda sé því fullkomlega misboðið.

Atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir Starfsgreinasambandsins hófst fyrir tæpri viku en niðurstaða á að liggja fyrir á miðnætti annað kvöld.

Sjá einnig: Segir stjórnarlaun í HB Granda meðal þeirra lægstu

„Þetta hefur verið hnökralaus atkvæðagreiðsla. Þátttakan er góð,“ segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Hún segir fréttir af 33 prósent launahækkun stjórnarmanna HB Granda hafa eflt sitt fólk í kjarabaráttunni. Stærstur hluti félagsmanna Starfsgreinasambandsins starfar við fiskvinnslu, þeirra á meðal starfsfólk hjá HB Granda á Akranesi.

„Við sáum það að atkvæðagreiðslan tók kipp eftir þessar fréttir og eftir viðbrögð okkar. Þetta er eins og olía á eld í kjaradeilunni, algjörlega. Fólki er fullkomlega misboðið,“segir Drífa.

Sjá einnig: Sýður á starfsfólki HB Granda: „Erum alltaf að setja ný met en fáum aldrei neitt“

Lítið þokast í samkomulagsátt í deilunni þar sem mikið ber í milli. Samningafundur Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins á föstudaginn reyndist árangurslaus og hefur nýr fundur ekki verið boðaður.

Drífa segist reikna með að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verði afgerandi og að samþykkt verði að hefja verkfallsaðgerðir í lok apríl ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra gagnrýnir hækkun stjórnarlauna

Forsætisráðherra segir óæskilegt og afleitt á allan hátt að stjórnarmenn fyrirtækja hækki laun sín um tugi prósenta. Segir stjórnvöld tilbúin að greiða fyrir kjarasamningum.

„Þú þvingar ekkert svar upp úr mér“

Kristján Loftsson gefur ekkert fyrir gagnrýni Vilhjálms Birgissonar á hækkun stjórnarlauna í HB Granda og segist ekki vilja svara því hvort hækka eigi lágmarkslaun til að ná sátt á vinnumarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×