Handbolti

Átján marka stórsigur hjá stelpunum hans Þóris

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson
Þórir Hergeirsson Vísir/Anton
Norska kvennalandsliðið vann átján marka sigur á Króatíu, 34-16, í kvöld í öðrum leik sínum í riðlakeppni EM kvenna í handbolta.  

Norska liðið hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína á Evrópumótinu en liðið vann Rúmeníu í fyrsta leik. Þórir Hergeirsson heldur áfram að gera frábæra hluti með liðið.

Norska liðið er þó ekki enn búið að tryggja sér sigurinn í riðlinum því liðið mætir Ólympíumeisturum Rússa í lokaumferð riðlakeppninnar.

Rússar töpuðu á móti Rúmeníu fyrr í dag og því eiga öll þessi þrjú lið möguleika á því að vinna riðilinn.

Norska liðið var reyndar tveimur mörkum undir, 6-4, eftir átta mínútna leik en gaf þá í, komst í 15-9 fyrir hálfleik og hlupu síðan yfir þær króatísku í seinni hálfleiknum.

Marit Malm Frafjord var markahæst í norska liðinu með sex mörk úr sex skotum, Nora Mörk og Sanna Solberg skoruðu fimm mörk. Silje Solberg, systir Sanne, kom í norska markið í hálfleik og varði 58 prósent skot í seinni hálfleiknum (10 af 17).

Dönsku stelpurnar eru líka með fullt hús eftir tvær umferðir en þær unnu fjögurra marka sigur á Ungverjum í kvöld, 23-19.  Stine Jorgensen var markahæst með fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×