Innlent

Átján ára ákærður fyrir tvær grófar líkamsárásir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ákæran á hendur piltinum átján ára er í fjórum liðum auk einkaréttakrafa um miskabætur.
Ákæran á hendur piltinum átján ára er í fjórum liðum auk einkaréttakrafa um miskabætur. Vísir/Hari
Átján ára piltur hefur verið ákærður af ríkissaksóknara fyrir tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir. Þá er honum einnig gefið að sök að hafa kýlt sextán ára stúlku með krepptum hnefa í andlitið. Hann var sjálfur sautján ára þegar árásin átti sér stað.

Önnur sérstaklega hættulega líkamsárásin var fyrir utan skemmtistaðinn Kaffi Amor við Strandgötu á Akureyri um Verslunarmannahelgina í ágúst 2014. Þar er hann sakaður um að hafa ráðist á 22 ára karlmann, slegið með krepptum hnefa í andlitið í tvígang og sparkað af miklu afli í höfuð hans. Afleiðingar árásarinnar voru þær að maðurinn hlaut þriggja sm langan skurð á hvirfli sem sauma þurfti saman.

Réðust tveir á einn

Hin sérstaklega hættulega líkamsárásin átti sér stað við Baldursgötu í Reykjavík sléttum tveimur vikum síðar en þá var ákærði í félagi við annan pilt, tveimur árum yngri. Eru þeir sakaðir um að hafa ráðist á sautján ára pilt með því að slá hann með krepptum hnefa í andlitið og sparkað báðir ítrekað í höfuð hans þar sem hann lá á götunni.

Pilturinn hlaut aflögun á nefi, brotna framtönn, mar á eyra og eymsli yfir kinnbeinum. Í einkaréttarkröfu er krafist tæplega 5,6 milljóna króna í miskabætur vegna árásarinnar.

Kýldu stúlku

Þá er átján ára pilturinn einnig ákærður fyrir að hafa kýlt stúlku árinu yngri með krepptum hnefa í gleðskap í Reykjavík í nóvember 2013. Féll hún niður stiga með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð á vinstri augabrún sem þurfti að sauma saman. Þá fékk hún mar á augnlok og augnsvæði og sömuleiðis mar á læri. Farið er fram á rúma hálfa milljón króna í miskabætur.

Að lokum er pilturinn ákærður fyrir að hafa ýtt við lögreglumanni í kyrrstæðum strætisvagni við Hringbraut í fyrrasumar. Ýtti hann með báðum höndum í búk lögreglumannsins þegar lögregla hafði afskipti af piltinum í vagninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×