Erlent

Atburðarásin eins og í House of Cards

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Michael Gove, dómsmálaráðherra, er líkt við Frank Underwood.
Michael Gove, dómsmálaráðherra, er líkt við Frank Underwood. Nordicphotos/AFP
Michael Gove, dómsmálaráðherra og frambjóðanda til embættis formanns Íhaldsflokks Breta, var í gær líkt við undirförlu sjónvarpspersónurnar Francis Urquhart og Frank Underwood í bresku og bandarísku útgáfum þáttanna House of Cards. Var það meðal annars gert í BBC, Washington Post og The Tele­graph.

Gove, sem hugðist styðja Boris Johnson í formannsstól, tilkynnti í fyrradag að hann byði sig sjálfur fram. Johnson væri ekki réttur leiðtogi fyrir Bretland en sá sem verður formaður flokksins tekur við forsætisráðherraembættinu af David Cameron.

The Telegraph sagði Gove hafa hringt í Lynton Crosby, kosningastjóra Johnsons, og sagt honum frá ætlan sinni. Crosby og Johnson voru þá á lokametrunum við að undirbúa tilkynningu Johnsons um framboð en í kjölfarið hættu þeir við. Þá segir The Telegraph Johnson og Gove hafa átt að mynda saman svokallað draumaframboð en þeir börðust einna harðast fyrir Brexit, aðskilnaði Bretlands frá Evrópusambandinu, sem samþykktur var í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðustu viku.

Samflokksmenn Goves hafa einnig gagnrýnt hann fyrir ákvörðun hans. Anna Soubry, viðskiptaráðherra Bretlands, sagði í gær að Gove hefði hegðað sér á vítaverðan hátt. Hvatti hún þá Gove til að hætta við og leyfa flokksmönnum að fylkja sér að baki helsta mótframbjóðanda hans, innanríkisráðherranum Theresu May.

Gove vísaði ásökunum hins vegar á bug í gær. Sagðist hann ekki bjóða sig fram vegna persónulegs metnaðar heldur vegna sannfæringar sinnar um hvað væri rétt fyrir Bretland. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×