Innlent

Átakið Klárum málið berst gegn mænusótt í heiminum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hér sést barn í Afghanistan fá bólusetningu við mænusótt fyrr í sumar.
Hér sést barn í Afghanistan fá bólusetningu við mænusótt fyrr í sumar. vísir/getty
Af hverjum seldum kaffidrykk á Te&Kaffi munu 25 krónur renna til bólusetningar barna í stríðshrjáðum löndum gegn mænusótt. Þetta er meðal þess sem felst í átakinu Klárum málið sem ýtt var úr vör í dag.

Á stríðssvæðum og í flóttamannabúðum eru börn berskjölduð gagnvart mænusótt. Tvö börn veiktust í Úkraínu fyrr í vikunni en það eru fyrstu tilfellin í Evrópu síðan 2010 og má rekja til þess hversu margir eru nú á flótta vegna átakanna í Úkraínu og hve hlutfall bólusetninga er lágt. Í Sýrlandi spruttu upp tilfelli í kjölfar stríðsins þar í landi.

„Mörg börn sem hafa neyðst til að leggja á flótta hafa misst af reglulegum bólusetningum og það er áhyggjuefni,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Á Íslandi eru börn bólusett gegn mænusótt þrátt fyrir að veikin hafi ekki verið landlæg hér í meira en hálfa öld. Það sýnir mikilvægi þess að útrýma henni endanlega úr heiminum. Meðan eitt barn er sýkt eru öll börn í hættu.“

Landlæg á Íslandi til 1956

Mænusótt, einnig þekkt sem lömunarveiki, veldur lömun og engin lyf eru til við sjúkdómnum. Bólusetning er eina leiðin til að hindra hann og koma í veg fyrir að hann valdi skaða. Ólíkt flestum sjúkdómum er hægt að útrýma mænusótt algjörlega. Sjúkdómurinn var landlægur í 125 ríkjum árið 1988 en í dag er veikin aðeins landlæg í Afganistan, Pakistan og Nígeríu.

Mænusótt olli miklum skaða á Íslandi áður en bóluefni gegn sjúkdómnum var fundið upp. Bóluefnið kom hingað til lands árið 1956 og eftir það var sjúkdómurinn nánast óþekktur hérlendis. Fólk hér á landi sem fékk veikina sem barn glímir hins vegar enn við afleiðingar sjúkdómsins.

Líkt og áður segir gefur Te&Kaffi andvirði einnar bólusetningar fyrir hvern seldan kaffidrykk. Einnig er hægt að senda sms-ið BARN í númerið 1900 og gefa þannig 1.000 krónur eða andvirði fjörutíu bólusetninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×