Innlent

Átakið #þöggun ratar út fyrir landsteinana

Bjarki Ármannsson skrifar
Myndirnar hafa vart farið fram hjá íslenskum Facebook-notendum.
Myndirnar hafa vart farið fram hjá íslenskum Facebook-notendum.
Nýtt vitundarvakningarátak, sem felst í því að skipta út forsíðumynd á Facebook fyrir aðra hvora myndina hér að ofan, fer nú eins og eldur í sinu um íslenskt Facebook-samfélag. Notkun myndanna á að vekja fólk til umhugsunar um hversu algengt kynferðisofbeldi er hér á landi.

Þeir sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi geta vakið athygli á því með því að setja appelsínugulu myndina á Facebook-síðu sína. Þeir sem þekkja einhvern sem orðið hefur fyrir slíku ofbeldi, geta notað gulu myndina. Einnig er hægt að nota blöndu af báðum ef við á.

Myndirnar hafa ratað víða undanfarna daga og í kvöld er fjallað um átakið á vef breska dagblaðsins The Independent. Þar eru myndirnar sagðar „einfaldar en áhrifaríkar“ og ýjað að því að þær gætu ratað á Facebook-síður á Bretlandi og víðar.

Átakið á rætur sínar að rekja til frásagna af kynferðisofbeldi af ýmsum toga sem íslenskar konur og stúlkur hafa deilt í Facebook-hópnum Beauty Tips að undanförnu. Hundruð kvenna hafa deilt slíkum sögum, oft með myllumerkjunum #þöggun og #konurtala, til að vekja athygli á kynferðisofbeldisvandanum og varpa ábyrgðinni af þolendum á gerendur. 


Tengdar fréttir

Hundruð kvenna segja frá ofbeldi

Íslenskar konur deila inni á Facebook-hópnum Beauty Tips reynslu sinni af kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. "Bylting“ segir ein þeirra og deilir reynslu sinni og vonast eftir að byltingin muni verða til þess að útrýma skömminni.

Segir kynferðisofbeldi af hálfu fyrrum kærasta afleiðingu klámvæðingarinnar

Lilja Karen er ein þeirra sem sagt hefur frá kynferðisofbeldi inn á Facebook-hópnum Beauty Tips. Hún segir fyrrverandi kærasta hafa beitt sig kynferðislegu og andlegu ofbeldi þegar hún var 14 ára gömul og brotin hafi verið afleiðing klámvæðingarinnar þar sem hann hafi verið heltekinn af klámi og sótt hugmyndir sínar um kynlíf þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×