Erlent

Áströlsk móðir barðist við kengúru til að bjarga tveggja ára dóttur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kengúran yfirgaf að lokum svæðið eftir hávær öskur nágranna.
Kengúran yfirgaf að lokum svæðið eftir hávær öskur nágranna. Vísir/Getty
Móðir í Queensland í Ástralíu þurfti að berjast við kengúru til að koma tveggja ára gamalli dóttur sinni til bjargar á heimili þeirra við Hervey Bay.

Móðirin Argie Abejaron sagði blaðamanni Fraser Coast Chronicle að hún hefði heyrt öskur sex ára sonar síns á þriðjudaginn og hlaupið út. Þar blasti við henni ófögur sjón en kengúran hélt dótturinni niðri og var að ráðast á hana.

„Kengúran var svipuð mér að stærð og ég taldi að ég ætti séns í hana,“ segir móðirin. „Hún var samt mjög sterk.“

Móðirin lagðist í jörðina og uppskar sár en tókst ætlunarverkið, að koma dóttur sinni úr hættu. Öskur nágranna fældu kengúruna að endingu í burtu. Dóttirin tveggja ára missti meðvitund vegna höggs og var flutt á sjúkrahús þar sem sauma þurfti sautján spor í bringu hennar.

Læknar segja að sporin séu komin til að vera en litla stelpan er öll skorin á líkamanum og sömuleiðis á hálfu andlitinu. Faðirinn líkir áverkunum við að hún hafi lent í slæmu slysi á hjólabretti.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×