Lífið

Ástralía tekur þátt í Eurovision í ár

Bjarki Ármannsson skrifar
Conchita Wurst frá Austurríki fór með sigur af hólmi í keppninni í fyrra.
Conchita Wurst frá Austurríki fór með sigur af hólmi í keppninni í fyrra. Mynd/Eurovision
Ástralir munu taka þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, í ár. Þetta segir á vefsíðu söngvakeppninnar. Eurovision hefur notið mikilla vinsælda í Ástralíu undanfarin ár og fær þjóðin þennan þátttökurétt í ár til að fagna sextíu ára afmæli keppninnar.

Fyrirkomulagið verður nokkuð einkennilegt að því er fram kemur á vefsíðunni. Hægt verður að kjósa framlag Ástrala og gæti það þess vegna farið með sigur af hólmi.

Gerist það, mun keppnin ekki vera haldin þar í landi árið 2016 heldur mun sjónvarpsstöðin SBS sjá um að halda keppnina í samvinnu við land í Evrópu. Þátttökuréttur Ástrala er einungis hugsaður til eins árs, en ef þeir vinna í ár munu þeir fá að taka þátt aftur að ári.

Með þessu verða þjóðirnar sem taka þátt í keppninni í ár alls fjörutíu talsins. Ástralir munu ekki taka þátt í undankeppninni heldur fara þeir beint í úrslitakeppnina sem fram fer í Vínarborg þann 23. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×