Lífið

Ástralía aftur í Eurovision

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Keppnin verður þó haldin í Evrópu, fari svo að Ástralar vinni keppnina.
Keppnin verður þó haldin í Evrópu, fari svo að Ástralar vinni keppnina. Vísir/EBU
Fulltrúi Ástralíu mun aftur mæta til leiks í Eurovision, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, í Stokkhólmi á næsta ári. Frá þessu var greint á vef Eurovision í morgun. Ástralar, sem öllum má vera ljóst að er ekki í Evrópu, fékk þátttökurétt á síðasta ári í tilefni að 60 ár voru frá fyrstu keppninni, en Ástralar eru annálaðir Eurovision-aðdáendur. 

„Viðbrögðin sem við fengum frá áhorfendum, aðdáendum, fjölmiðlum og sjónvarpsstöðvunum eftir þátttöku Ástralíu í Vín var mjög jákvætt,“ er haft eftir Jon Ola Sand, framkvæmdastjóra keppninnar á Eurovisionvefnum. „Við trúum því að Eurovision hafi möguleika á að þróast náttúrulega í að verða heimsviðburður. Áframhaldandi þátttaka Ástrala er spennandi skref í þá átt.“

Ástralar fóru beint inn í úrslit á síðasta ári og hafnaði lagið Tonight Again í flutningi Guy Sebastian í fimmta sæti. Í næstu keppni þurfa Ástralar hins vegar að heilla þjóðir Evrópu upp úr skónum í undanúrslitum til að eiga möguleika á að toppa árangurinn frá því í ár. 

Fari svo að Ástralar vinni keppnina að ári verður keppnin þó ekki haldin í Eyjaálfu. Ástralska ríkissjónvarpinu verður úthlutaður samstarfsaðili í Evrópu og verður keppnin haldin í einhverju af Evrópulandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×