Enski boltinn

Aston Villa vinnur aftur með Birki Bjarna á bekknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Kodjia fagnar marki sínu í kvöld en lék áður með Bristol City.
Jonathan Kodjia fagnar marki sínu í kvöld en lék áður með Bristol City. Vísir/Getty
Aston Villa vann í kvöld sinn annan leik í röð í ensku b-deildinni í fótbolta en liðið vann þá 2-0 heimasigur á Bristol City í Íslendingaslag þar sem íslensku landsliðsmennirnir voru á varamannabekknum. Newcastle vann á sama tíma toppslaginn á móti Brighton & Hove Albion.

Aston Villa tapaði fimm fyrstu leikjum sínum eftir að Birkir Bjarnason kom til liðsins frá Basel en hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir að íslenski landsliðsmaðurinn missti sæti sitt í byrjunarliðinu.

Aston fylgdi eftir 1-0 sigri á Derby um helgina með því að vinna Bristol City í kvöld en báðir leikirnir fóru fram á Villa Park

Jonathan Kodjia fékk frábært tækifæri til að skora í fyrri hálfleik en skaut þá hátt yfir úr vítaspyrnu.

Jonathan Kodjia bætti fyrir það með því að koma Aston Villa í 1-0 á 54. mínútu og fimm mínútum síðar bætti varamaðurinn Conor Hourihane við öðru marki. Albert Adomah átti stoðsendinguna í báðum mörkunum.

Birkir Bjarnason kom inn á sem varamaður fyrir Andre Green á 86. mínútu en Green meiddist. Hörður Björgvin Magnússon sat allan tímann á varamannabekknum hjá Bristol City.

Newcastle vann 2-1 endurkomusigur á útivelli á móti Brighton í uppgjör toppliðanna í kvöld. Glenn Murray kom Brighton í 1-0 með marki úr vítaspyrnu strax á 14. mínútu en Mohamed Diamé jafnaði fyrir Newcastle á 81. mínútu. Það var síðan Ayoze Perez sem skoraði sigurmarkið á 89. mínútu.

Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Newcastle, gerði sókndjarfa skiptingu þegar sextán mínútur voru eftir og hún skilaði tveimur mörkum og þremur stigum.

Newcastle komst upp fyrir Brighton og í toppsætið með þessum sigri. Newcastle er nú með 73 stig en Brighton er áfram með 71 stig. Það eru síðan sex stig í Huddersfield Town í þriðja sætinu en tvö efstu liðin fara beint upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×