Lífið

Ástarleit á miðjum aldri: Fær kynlífstilboð frá giftum mönnum í hverri viku

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Ég hef ekki áhuga á því að fara niðrí bæ, drekka mig fulla, sofa hjá einhverjum og vona það besta.” Þetta segir Ester Auður Elíasdóttir, 52 ára, í umfjöllun Íslands í dag um stefnumótamenningu hjá fólki sem komið er yfir miðjan aldur.

Ester ákvað að skrá sig á stefnumótasíður fyrir rúmu ári síðan til að finna ástina. Þó hún vonist eftir því að finna hina einu, sönnu ást gerir hún sér grein fyrir því að það gæti farið svo að hún yrði ein það sem eftir er.

Í meðfylgjandi myndbroti segir hún frá því að hún hafi fengið ýmis gróf skilaboð frá mun yngri mönnum, jafnvel yngri en tvítugt. Þá fær hún skilaboð frá giftum mönnum í hverri viku sem eru að leita sér að kynlífi utan hjónabands.

„Vogaði mér að kyssa hana“

Í myndbrotinu er einnig rætt við hjónin Lilju Dóru Hjörleifsdóttur, 68 ára, og Grétar Þorleifsson, 71 árs, en þau byrjuðu saman í lok júní í fyrra og giftu sig í nóvember, á sjötugsaldri. Þau höfðu verið vinir um árabil, eða allt síðan Grétar flutti inn í sama hús og Lilja. En einn daginn kviknaði rómantíkin.

„Þann 30. júní í fyrra þá vogaði ég mér að kyssa hana. Ég fann mér eitthvað gervitilefni en kossinn, hann fékkst,” segir Grétar sem var ekki viss um að Lilja myndi kunna að meta kossinn.

„Ég átti alveg von á að fá sinn undir hvorn, þó ég vissi nú að hún væri mjög góðhjörtuð kona. En ég var orðin bálskotinn í henni fyrr."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×