Erlent

Ástarlásarnir í París munu heyra sögunni til

Bjarki Ármannsson skrifar
Lásarnir hafa skipað sér sess með helstu kennileitum borgarinnar.
Lásarnir hafa skipað sér sess með helstu kennileitum borgarinnar. Vísir/AFP
Borgaryfirvöld í París hyggjast fjarlægja hina svokölluðu ástarlása sem prýtt hafa göngubrúnna Pont des Arts undanfarin ár. Hefð hefur myndast fyrir því að pör sem ferðast til borgarinnar hengi lás með nöfnum sínum á brúna og kasti svo jafnvel lyklinum í ána Signu fyrir neðan.

Í fyrra þurfti hins vegar að loka brúnni í nokkrar klukkustundir þegar járnhandrið hrundi fyrir gagnveginn undan þunganum af lásunum. Að því er BBC greinir svo frá í dag, telja yfirvöld lásana ógna öryggi fólks og hyggjast fjárlægja þá alla strax eftir helgi.

Hátt í milljón lásar prýða brúna og eru þeir taldir vega um 45 tonn. Lásar verða einnig fjarlægðir af annarri brú yfir Signu, Pont de l‘Archeveche hjá Notre Dame-kirkjunni.

Óhætt er að segja að lásarnir hafi skipað sér sess meðal helstu kennileita borgarinnar frá því að þeir tóku fyrst að birtast fyrir fimm árum. Talið er að borgaryfirvöld hafi ekki gripið til aðgerða fyrr af ótta við að spilla þeirri ímynd sem París hefur sem borg ástarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×