Erlent

Ástandið í Úkraínu að verða stjórnlaust

Atli Ísleifsson skrifar
Um 2.600 hafa fallið í átökum aðskilnaðarsinna og úkraínska hersins síðustu mánuði.
Um 2.600 hafa fallið í átökum aðskilnaðarsinna og úkraínska hersins síðustu mánuði. Vísir/AFP
Utanríkisráðherra Þýskalands segir ástandið í austurhluta Úkraínu á góðri leið með að verða stjórnlaust. Nauðsynlegt sé að ná tökum á ástandinu til að koma í veg fyrir að bein hernaðarátök brjótist út milli Úkraínu og Rússlands.

Frank-Walter Steinmeier lét orðin falla fyrr í dag. Evrópusambandið íhugar nú að beita Rússum enn frekari viðskiptaþvingunum vegna framgöngu sinnar gagnvart Úkraínu og stuðnings við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Rússar hafa staðfastlega neitað ásökunum NATO og fleiri um að rússneski herinn hafi haldið yfir úkraínsku landamærin til að styðja við bakið á aðskilnaðarsinnum.

Steinmeier sagði þegar alvarlegt ástand hafa versnað enn frekar síðustu daga. Segir hann það mikil vonbrigði að beinar viðræður Úkraínumanna og Rússa í Hvíta-Rússlandi fyrr í vikunni hafi ekki dregið úr spennu í heimshlutanum.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti kennir Úkraínumönnum um ástandið og fyrr í dag líkti hann umsátri Úkraínuhers um Donetsk og Luhansk við umsátur nasista um Leníngrad í seinna stríði.

Utanríkisráðherrar Frakklands, Svíþjóðar og Hollands tóku allir undir orð Steinmeier, en leiðtogar aðildarríkja ESB koma saman til fundar í Brussel á morgun. Ekki er útilokað að ákvarðanir um frekari viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum verði teknar á þeim fundi.

Fyrr í dag boðaði NATO til neyðarfundar eftir að hafa birt gervihnattamyndir af rússneskum hersveitum innan landamæra Úkraínu. Hvatti Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, Rússa til að grípa til aðgerða þegar í stað til að draga úr spennu.

Rasmussen ýjaði einnig að því að NATO myndi íhuga að veita Úkraínu aðild að bandalaginu eftir að úkraínski forsætisráðherrann Arseny Yatsenyuk tilkynnti að úkraínsk stjórnvöld hyggjast gera aðra tilraun til að gerast aðilar.

Í frétt BBC segir að um 2.600 hafi fallið í átökum aðskilnaðarsinna og úkraínska hersins. Deilan um héruðin Donetsk og Luhansk spruttu upp í apríl í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×