Erlent

Ástandið á Gaza: "Ég er mjög ánægð að ég komst í burtu“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ófremdarástand ríkir á Gazasvæðinu og engin lausn virðist vera í sjónmáli. Þetta segir Íslendingur sem starfar í Jerúsalem, en yfir hundrað manns hafa nú fallið í árásum Ísraelshers og á sjöunda hundrað eru særðir.

Átökin milli Ísrela og Palestínumanna eru þau allra verstu síðan í átta daga stríði þeirra árið 2012. Tugir sprengja skekja land Gazasvæðisins á hverri mínútu sem líður og magnast átökin frá degi til dags. Magnea Marinósdóttir hefur búið og starfað í Jerúsalem frá því í febrúar á þessu ári. Hún segir Palsetínumenn hvorki komast lönd né strönd og geta enga björg sér veitt. Því sé  nauðsynlegt að líta á hernaðaraðgerðir Palestínumanna sem neyðaróp þeirra.    

„Maður verður að líta á þessar hernaðaraðgerðir í raun og veru sem hálfgert öskur. Við erum hérna við erum lokuð af við höfum ekkert rafmagn og engan mat. Það er búið að loka lífæðinni okkar sem voru þessi smyglgöng yfir til Egyptalands. Það er ótrúlegt ófremdarástand þarna og við komumst hvorki lönd né strönd,“ segir Magnea Marinósdóttir, landsfulltrúi félagasamtakanna Kvinna till kvinna í Ísrael og Palestínu.

Mjög ánægð með að hafa komist í burtu

Yfirvöld í Ísrael hafa skotið um þúsund loftskeytum á um hundrað skotmörk á Gaza. Að sama skapi hafa liðsmenn Hamas í Palestínu skotið fjölda skeyta í átt að Ísrael. Ekki hafa borist neinar fregnir af mannfalli í Ísrael.  Flugskeytum hefur verið skotið á Jerúsalem síðustu daga en hafa þau ekki valdið neinu tjóni. Magnea býr í Jerúsalem og segir skelfingu hafa gripið um sig þegar sprengjunum var varpað.

„Ég er ekki hrædd, en auðvitað fór þetta dálítið um mig þegar ég heyrði sírenurnar og vissi að það væri flaugum beint að borginni. Ég veit ekki hvernig mér myndi líða núna. Mér myndi eflaust ekki líða mjög vel. Ég er mjög ánægð að ég komst í burtu. Ég verð bara að viðurkenna það. Þetta fer út í eitthvað stjórnleysi og fólk veit ekki við hverju það á að búast. “

Lausn virðist ekki vera fyrir hendi

Átökin hófust síðastliðinn þriðjudag og hefur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verið kallað saman. Ban Ki-Moon, aðalframkvæmdastjóri SÞ sagði að nauðsynlegt væri að bregðast tafarlaust við til að koma í veg fyrir frekara blóðbað. Þá segjast bandarísk stjórnvöld vera tilbúin til að miðla málum í átökunum á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna, en Barack Obama, Bandaríkjaforseti, viðraði þá hugmynd  í samtali við Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael í nótt. Utanríkisráðuneytið í Egyptalandi hefur jafnframt reynt að koma á sátt milli aðila en segja hvoruga viljuga til að gefa eftir.

„Það eru ákveðnar aðstæður sem liggja þarna að baki sem eru mjög djúpstæðar. Það þarf að finna varanlega lausn við þessu þannig að það náist einhver friður. Eins og ég hef upplifað það þá virðist það ekki beinlínis vera fyrir hendi,“ segir Magnea.


Tengdar fréttir

Íslendingar fari ekki til Gaza

Utanríkisráðuneytið ræður Íslendingum frá ferðalögum til Gaza vegna ótryggs ástands þar.

Tugir liggja í valnum eftir loftárásir

Spennan heldur áfram að magnast á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna á Gazasvæðinu, en tuttugu og sjö liggja nú í valnum og yfir hundrað eru særðir eftir hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna í dag.

"Ástandið er skelfilegt“

Sveinn Rúnar Hauksson læknir og formaður Ísland-Palestína segir ástandið skelfilegt. Hann telur árásirnar beinast gegn óbreyttum borgurum til að vekja skelfingu og ótta og lýsir árásum Ísraelsmanna sem þjóðarmorði.

Obama vill stilla til friðar

Rúmlega níutíu hafa fallið í aðgerðum Ísraelshers á Gaza síðustu daga. Ekki hafa borist neinar fregnir af mannfalli í Ísrael.

Ísraelar boða hertar árásir á Gaza

Að minnsta kosti 35 hafa fallið í árásum ísraelshers á Gaza undanfarna daga, þeirra á meðal konur og börn. Enginn hefur fallið í árásum Hamas á Ísrael.

Flytja hermenn að Gaza

Spenna hefur verið mikil í Ísrael og Palestínu eftir morð þriggja ísraelskra pilta og 17 ára drengs frá Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×