Erlent

Assange varð ekki að ósk sinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Julian Assange.
Julian Assange. Vísir/Getty
Ríkissaksóknari Svíþjóðar þarf ekki að falla frá rannsókn sinni á meintum kynferðisbrotum Julian Assange. Sænskur dómstóll hefur komist að þessari niðurstöðu eftir að úrskurðarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafði komist að þeirri niðurstöðu, að Assange væri í raun haldið föngnum í sendiráði Ekvadors í London.

Eftir að úrskurðarnefnd SÞ komst að sinni niðurstöðu fyrr á árinu óskuðu lögfræðingar Assange eftir því að sænsk yfirvöld myndu draga handtökuskipun sína á hendur Assange til baka.

Í niðurstöðu dómsins í Svíþjóð segir að ekki sé litið svo á að Assange, sem er stofnandi Wikileaks, sé í haldi í sendiráði Ekvadors í London en þangað flúði hann árið 2012 eftir að sænsk yfirvöld óskuðu eftir framsali hans vegna ásakana um kynferðisbrot, sem þau vilja yfirheyra hann um.

Hafa sænsk yfirvöld óskað eftir aðstoð embættismanna í sendiráði Ekvadors í London við að yfirheyra Assange sem sakaður var um að hafa framið kynferðisbrot gagnvart tveim konum í Svíþjóð árið 2010.

Assange sjálfur telur sig eiga á hættu að hann verði framseldur til Bandaríkjanna, þar sem yfir honum vofa málaferli og fangelsi vegna uppljóstrana Wikileaks um framferði bandaríska hersins.


Tengdar fréttir

Bretar hafna niðurstöðu SÞ

Staða Julian Assange hefur ekkert breyst í Bretlandi þrátt fyrir að Sameinuðu þjóðírnar segi hann eiga að ganga frjálsan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×