Erlent

Assad segir loftárásir Bandaríkjamanna árangurslausar

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Bashar al-Assad forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad forseti Sýrlands. vísir/epa
Forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, segir að bandalag milli Sýrlands, Rússlands, Írans, og Íraks, verði að skila árangri, annars verði svæðið eyðileggingu að bráð.

Hann sagði það jafnframt mikilvægt fyrir öll Miðausturlöndin að loftárásir Rússlands gegn Íslamska ríkinu væru árangursríkar en loftárásirnar héldu áfram í gær og hafa nú staðið yfir í sex daga.

Í viðtali við íranska ríkissjónvarpið sagði forsetinn að Sýrland, Rússland, Íran og Írak ynnu saman að því að berjast gegn hryðjuverkum og hann teldi líkur á því að árásirnar yrðu árangursríkar. Hann gagnrýndi jafnframt loftárásir Bandaríkjamanna í Sýrlandi og Írak og sagði þær ekki hafa borið árangur í að sporna gegn hryðjuverkum á svæðinu.

Alþjóðlegir andstæðingar forsetans hafa sagt að til þess að binda enda á borgarastyrjöldina í Sýrlandi verði forsetinn að segja af sér en sjálfur segir forsetinn í viðtalinu að ef lausnin fælist í afsögn hans myndi hann ekki hika við að segja af sér.

Loftárásir Rússa hafa líkt og áður sagði staðið yfir í sex daga og er árásunum sagt beint gegn herbúðum Íslamska ríkisins en sýrlenskir aktívistar segja þær beinast gegn öðrum uppreisnarhópum.

Í gær sagði rússneska varnamálaráðuneytið frá því að að flugvélar þeirra hefðu sprengt tíu skotmörk undir yfirráðum Íslamska ríkisins. Sýrlenskir aktívistar sögðu hins vegar að í það minnsta tvö börn og smali hefðu beðið bana í árásunum sem beint var að borginni Homs og árásirnar hefðu að auki sært fimmtán manns.

Bæði Tyrkland og Bretland hafa fordæmt aðgerðir Rússa og hvatti David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, Rússa til að breyta um stefnu og viðurkenna að forsetinn verði að hverfa frá völdum í Sýrlandi, hann væri ekki fær um að sameina sýrlensku þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×