Skoðun

Áskrifendum fjölgað og stefnt að enn betri þjónustu

Sævar Freyr Þráinsson skrifar
Hagur fólks hefur vænkast og kaupmáttur aukist á árinu sem er að líða. Verðbólga er lægri, viðskiptaafgangur og minnkandi atvinnuleysi. Vaxtalækkun, minni verðbólga og skuldaleiðréttingar munu vonandi tryggja að við höfum úr meiru að moða á komandi ári. Horfa þarf til þess hvað hefur skapað árangurinn svo áfram megi tryggja jákvæða þróun.

Aðalútflutningsgreinar okkar hafa dafnað og stefnir í að gjaldeyrisskapandi greinar eflist enn frekar. Íslensk heimili og fyrirtæki greiða hins vegar of háa vexti sem dregur mátt úr atvinnulífinu og heimilunum.

Fjárlög ríkisins fyrir 2015 eru vísbending um metnaðar- og agaleysi. Útgjöld hafa aukist um 90 milljarða frá 2012. Lítils háttar afgangur dugar ekki þegar takast þarf á við miklar skuldir og ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar.

RÚV er birtingarmynd þessa agaleysis. Stjórnendur þar virðast líta á það sem hlutverk sitt að biðja elsku mömmu um pening í stað þess að ráðast á rekstrarvandann með myndarskap. Lausatök undanfarinna ára eru verðlaunuð með auknum fjárveitingum. Getur verið að uppeldið sé ekki í lagi?

Hjá 365 höfum við einfaldað rekstur og skerpt á aðgreiningu á markaði. Rekstrarkostnaður hefur lækkað um hundruð milljóna. Hlutur kvenna meðal lykilstjórnenda hefur vaxið úr 10% í 50% og sameining við Tal mun gera 365 mögulegt að bjóða farsímaþjónustu með heimasíma og internetþjónustu.

Áskrifendum hefur fjölgað um 17 prósent og hærra er stefnt með enn betri þjónustu. Á Stöð 2 maraþon getur fólk séð heilar þáttaraðir og Stöð 2 er heimili HBO. Áskrifendum stendur til boða besta afþreyingarefni sem völ er á í sjónvarpi.

Samtímis hefur samkeppni frá erlendum efnisveitum aukist. Við erum vel í stakk búin til að mæta henni. En um leið þurfa stjórnvöld að hlúa að skapandi greinum í stað þess að þyngja byrðarnar t.d. með hækkun virðisaukaskatts.

Á nýju ári ætlar 365 að standa fyrir hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu. Við viljum að samfélagið okkar dafni. Það ætlum við að gera með öflugri fréttastofu og fjölbreyttri þáttagerð. Við munum bjóða heimilum landsins hagstæðari kjör í fjarskiptaþjónustu og framúrskarandi afþreyingu sem auglýsendur geta nýtt til að stuðla að árangri í sinni starfsemi.

Fyrir hönd 365 óska ég landsmönnum öllum gleðilegs árs.




Skoðun

Sjá meira


×