Viðskipti innlent

ASÍ segir súkkulaði og kaffi hækka mest

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Verð á jólakaffi hækkar í flestum verslunum.
Verð á jólakaffi hækkar í flestum verslunum. mynd/getty
Niðurstöður könnunar verðlagsnefndar Alþýðusambands Íslands fyrir desembermánuð liggja nú fyrir. Verð á jólamat hækkar á milli ára en þó eru dæmi þess að einhverjar verslanir hafi lækkað hjá sér verð.

Verslanir Bónuss, Víðis og Samkaupa-Úrvals hafa heldur lækkað verð á sínum vörum. Reyndin er hins vegar önnur sé litið til Nettó, Iceland og Fjarðarkaupa þar sem verð á flestum vörum könnunarinnar hefur hækkað.

Mest er hækkunin á konfekti og kaffi. Hátíðarkaffi frá Kaffitári hækkar minnst um tíundahluta í öllum verslunum að Bónus undanskildum þar sem verð lækkar um tíu prósent.

Lindu-konfektaskja hefur hækkað í öllum verslunum nema Hagkaupi. Mest er hækkunin um 36 prósent hjá Nettó en aðeins minni hækkun má finna í Fjarðarkaupum.

Svipaða sögu er að segja af konfektkössum frá Nóa Síríusi sem hækka í flestum verslunum. Hálft kíló kostar til að mynda þriðjungi meira í Fjarðarkaupum nú en í fyrra og fjórðungi meira í Nettó.

Í verslunum Víðis hefur verð á kjöt- og fiskvörum lækkað umtalsvert en slíkar vörur hafa hækkað í Nettó. Flestar aðrar verslanir standa nánast í stað milli ára. Verð á viðbiti, ostum, drykkjarvörum, brauði og kökum er á flestum stöðum áþekkt.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×