Innlent

ASÍ gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp heilbrigðisráðherra um greiðsluþátttöku

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
ASÍ er ósátt við frumvarp heilbrigðisráðherra um greiðsluþátttöku en fagnar því þó að verið sé að reyna gera breytingar.
ASÍ er ósátt við frumvarp heilbrigðisráðherra um greiðsluþátttöku en fagnar því þó að verið sé að reyna gera breytingar. Vísir/Baldur
Alþýðusamband Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við að breytingar á greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu séu eingöngu fjármagnaðar með aukinni kostnaðarþátttöku allflestra notenda heilbrigðisþjónustunnar. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ.

Sambandið fagnar þó því að fram séu komnar hugmyndir um breytingar á kerfinu sem miða að því að sett sé hámark á þann kostnað sem sjúklingar þurfa að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Í ályktuninni segir að verið sé að færa kostnað milli hópa.

„Ekki stendur til að auka fjármagn til málaflokksins og draga úr heildarkostnaðarþátttöku sjúklinga. Þetta mun leiða til þess að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu hækkar bæði hjá sjúklingum almennt en ekki síður hjá öldruðum og öryrkjum.“

Alþýðusambandið telur jafnframt kostnaðarþakið sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu of hátt.

„Ekki síst í ljósi þess að lyfjakostnaður og sálfræðiþjónusta er fyrir utan þetta kerfi en báðir þættir eru mjög dýrir fyrir fjölda fólks. Margir munu því áfram hafa heilbrigðiskostnað sem fer talsvert umfram það hámark sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það býður heim hættunni á því að þeim fjölgi enn sem hafa ekki efni á að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Það er með öllu óásættanlegt.“


Tengdar fréttir

Þungur baggi á heimilunum

Gjaldtaka í íslensku heilbrigðiskerfi er harðlega gagnrýnd í nýrri skýrslu ASÍ. Ekkert þak er á heildarkostnaði sjúklinga og mikið ójafnræði er á milli sjúklingahópa eftir því hvaða meðferð þeir sækja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×