Viðskipti innlent

ASÍ gagnrýnir forgangsröðun fjárlagafrumvarpsins

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Miðstjórn Alþýðusambandsins gagnrýnir forgangsröðun sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Ljósin sem vara við ofþenslu í efnahagslífinu blikka í frumvarpinu. Að mati miðstjórnar ASÍ eru áherslurnar í frumvarpinu rangar þar sem velferðarþjónusta í landinu situr á hakanum þar sem aukin framlög dekka fyrst og fremst miklar kostnaðarhækkanir.  Þetta kemur fram í umsögn ASÍ um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015.

Í umsögninni segir að framlög til þjónustu í velferðarkerfinu séu ekki að aukast að raungildi sem sé dapurlegt þegar hagur þjóðarinnar fer batnandi, en ljóst sé að endurreisa þarf velferðarþjónustu eftir hrun. Miðstjórnin telur að stór velferðarverkefni séu enn sem komið er ófjármögnuð og nefnir þar heilbrigðistþjónustuna, endurskipulagningu öldrunarþjónustu, menntaúrræði og félagslegt húsnæðiskerfi. Miðstjórnin telur að jákvætt skref hafi verið stigið í félagslegu húsnæðiskerfi en að það dugi engan veginn til.

Miðstjórnin telur gagnrýnivert að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar til að draga úr þenslu áhrifum sé að halda velferðarþjónustunni nirði. Það sé röng forgangsröðun í landi sem vill kenna sig við norrænt velferðarsamfélag og mun þegar til lengri tíma er litið ýta undir ójöfnuð og ágreining. ASÍ telur með öllu ósættanlegt að með frumvarpinu sé verið að draga úr vægi bæði vaxta- og barnabóta og bendir á að viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækka einungis um 5% og halda þannig ekki í við áætlaðar hækkanir á vísitölu neysluverðs milli ára.

Alþýðusambandið lýsir einnig yfir áhyggjum af efnahagslegum áhrifum fjárlagafrumvarpsins. Þegar gert sé ráð fyrir 15,3 milljarða afgnagi af fjárlögum á eftir að taka tillit til áhrif gerðardóms og áhrif þeirra samninga sem ekki var lokið í sumarbyrjun. Því megi gera ráð fyrir að í meðförum þingsins verði að leiðrétta launaforsendur fjárlaganna til hækkunar. Þá hafi einnig verið gefin vilyrði fyrir auknum útgjöldum á næsta ári sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Því telur ASÍ að gera megi ráð fyrir nokkru minni afgangi.  

Hagvísar benda til þess að þensla fari vaxandi í hagkerfinu, þá er mikilvægt að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í fjárlögunum og peningastefna Seðlabankans vinni í sömu átt. ASÍ segir að því miður sé misbrestur á því og telur þetta ekki ásættanlegt og að þetta muni að óbreyttu leiða til meiri verðbólgu en ella og hærri vaxta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×