Fótbolti

Ashley Cole fékk tvö gul á 17 sekúndum og var rekinn af velli | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ashley Cole verður í banni í næsta leik.
Ashley Cole verður í banni í næsta leik. vísir/getty
Ashley Cole, fyrrverandi bakvörður Arsenal, Chelsea og enska landsliðsins, var rekinn af velli á mettíma í leik LA Galaxy og Sporting Kansas City í MLS-deildinni í fótbolta í gærkvöldi.

Cole, sem er 35 ára í dag, gekk í raðir Galaxy fyrir leiktíðina frá Roma, en hann varð Englandsmeistari þrisvar sinnum á ferlinum, bikarmeistari sjö sinnum og vann Meistaradeildina með Chelsea árið 2012.

Honum tókst í gær að fá tvö gul spjöld með 17 sekúndna millibili og var rekinn af velli í stöðunni 1-1. Sem betur fer fyrir hann náðu félagar hans að halda út og fá stig gegn sterku liði Sporting Kansas.

Fyrra gula spjaldið fékk Cole fyrir að vera of lengi að taka innkast en eftir að hann fékk spjaldið kastaði hann boltanum inn á. Boltinn barst strax aftur til hans en móttaka Englendingsins var svo slæm að Benny Feilhaber, leikmaður Sporting, tók af honum boltann.

Cole ætlaði þá að tækla boltann af Feilhaber sem tókst því hann var langt á undan í boltann en vinstri fótur Cole fylgdi vel í gegn og endaði á ökklanum á mótherjanum. Fyrir það fékk sá enski sitt annað gula spjald.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan en atvikið hefst eftir tvær mínútur og 25 sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×