Innlent

Ásgerður vill tvær milljónir frá Eiði vegna meiðyrða

Birgir Olgeirsson skrifar
Ásgerður Jóna hefur kært Eið Svanberg fyrir meiðyrði. Eiður svaraði með gagnstefnu gegn Ásgerði.
Ásgerður Jóna hefur kært Eið Svanberg fyrir meiðyrði. Eiður svaraði með gagnstefnu gegn Ásgerði. Vísir/GVA/Valgarður.
Ásgerður Jóna Floasdóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, og Eiður Svanberg Guðnason, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, mætast í Héraðsdómi Reykjaness á föstudag þar sem tekið verður fyrir meiðyrðamál Ásgerðar á hendur Eiði. Samtímis verður tekin fyrir gagnstefna Eiðs á hendur Ásgerði Jónu, einnig fyrir meiðyrði.

Ummæli þeirra voru látin falla á netinu fyrir tæpum fimm árum en Ásgerður Jóna krefst þess að eftirfarandi ummæli sem Eiður birti á bloggsíðu sinni á Eyjunni þann 23. september árið 2010 um Ásgerði Jónu verði dæmd dauð og ómerk:

a. „Þetta voru sannarlega athyglisverðar upplýsingar. Þeim verður þó líklega ekki hampað í Útvarpi Sögu. Konan er ekki talandi og ætti aldrei að komast í námunda við hljóðnema. - Ferill Ásgerðar Jónu í fjármálum (Mæðrastyrksnefnd) fellur sennilega vel að smekk eiganda ferðaskrifstofunnar Iceland Express.“

b. „Sagt er að pelsar konunnar eigi sér ekki jafningja á Íslandi en hún klæðist þeim ekki í fjölskylduhjálpinni, sem hún svo kallar, þar sem hún felur sig bak við Fons.“

Ásgerður krefst þess að Eiði verði gert með dómi að birta forsendur og dómsorð á bloggsvæði sínu. Þá krefst hún að Eiði verði gert að greiða sér rúmar 484 þúsund krónur til birtingar dómsins í opinberu blaði. Þá vill hún einnig fá tvær milljónir króna í miskabætur auk vaxta.

Ásgerður telur þessi skrif Eiðs hafa vegið að æru hennar, móðgað hana og lítillækkað. Þá telur hún þessi ummæli skaðleg sökum stöðu sinnar hjá Fjölskylduhjálp Íslands.

Eiður hefur að sögn fjarlægt þessi skrif af vefsvæðinu og hefur gagnstefnt Ásgerði Jónu fyrir eftirfarandi ummæli sem hún hafði um Eið í viðtali sem birtist á Pressunni þann 4. ágúst árið 2010.

a. „Eiður Guðnason er bara ljótur maður á sálinni“.

b. „Hún ætli nú að kæra rógberana, sem allir komi úr sömu átt, þetta séu bloggarar á eyjunni, þar á meðal Eið Guðnason, fyrrverandi ráðherra og sendiherra.“

Hann segir þessi ummæli skaða orðspor sitt og heiður og vill meina að þau sé til þess fallin að valda honum álitshnekki.

Eiður krefst þess að Ásgerði verði gert með dómi að greiða sér 969 þúsund krónur til birtingar dómsins í 2 ritum eða dagblöðum þegar dómur er genginn í málinu auk málskostnaðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×