Fótbolti

Ásgeir Sigurvinsson síðastur til að skora í Hollandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Sigurvinsson skoraði síðast fyrir Ísland í Hollandi.
Ásgeir Sigurvinsson skoraði síðast fyrir Ísland í Hollandi. vísir/getty
Íslenska landsliðið er komið til Hollands þar sem strákarnir bæta Hollandi á Amsterdam Arena í kvöld í sjöundu umferð A-riðils undankeppni EM 2016 en íslenska landsliðið hefur átt erfitt uppdráttar á hollenskri grundu í gegnum tíðina.

Þetta verður sjöundi leikur íslenska landsliðsins í Hollandi og allir hinir sex hafa tapast. Markatala íslenska liðsins í Hollandi er ekki glæsileg eða 23 mörk í mínus (2-25).

Hollendingarnir hafa nú skorað 9 mörk í röð á móti Íslandi í Hollandi án þess að íslenska liðið hafi náð að svara fyrir sig.

Ásgeir Sigurvinsson skoraði síðasta mark Íslands á hollenskri grundu en það kom úr vítaspyrnu í 4-1 tapi á De Goffert leikvanginum í Nijmegen 31. ágúst 1977. Ásgeir minnkaði þá muninn í 3-1 á 76. mínútu leiksins.

Aðeins einn annar íslenskur landsliðsmaður hefur skorað á móti Hollendingum í landsleik í Hollandi og það var Elmar Geirsson sem skoraði í 8-1 tap á móti Hollandi á De Adelaarshorst leikvanginum í Deventer 29. ágúst 1973.

Mark Elmars kom á lokamínútu fyrri hálfleiksins og minnkaði hann þá muninn í 4-1.

Ísland lék síðast í Hollandi 11. október 2008 þar sem liðið tapaði 2-0. Joris Mathijsen og Klaas-Jan Huntelaar skoruðu fyrir hollenska liðið.

Ólafur Jóhannesson var þarna þjálfari Íslands en í liðinu voru nokkrir leikmenn liðsins í dag.

Gunnleifur Gunnleifsson, Ragnar Sigurðsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Birkir Már Sævarsson voru allir í byrjunarliðinu og Theódór Elmar Bjarnason og Aron Einar Gunnarsson komu inná sem varamenn.

Tölfræði íslenska liðsins í Hollandi er ekki sú glæsilegasta en eitt skref til að laga hana væri að ná góðum úrslitum á Amsterdam Arena í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.45 að íslenskum tíma og fylgst verður með honum hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×