Handbolti

Ásgeir Örn með níu mörk í tapi Nimes

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stórleikur Ásgeirs dugði ekki til gegn Aix.
Stórleikur Ásgeirs dugði ekki til gegn Aix. vísir/ernir
Fimmtán mörk frá Ásgeiri Erni Hallgrímssyni og Snorra Steini Guðjónssyni dugðu Nimes ekki til sigurs gegn Aix í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 33-28, Aix í vil.

Ásgeir átti sinn besta leik í vetur, allavega hvað markaskorun varðar, en hann gerði níu mörk úr 17 skotum.

Snorri skoraði sex mörk úr 14 skotum en hann hefur alls gert 77 mörk í 11 deildarleikjum í vetur.

Arnór Atlason og félagar hans í Saint Raphael töpuðu dýrmætum stigum í toppbaráttunni þegar þeir lágu, 28-27, fyrir Cesson-Rennes á útivelli.

Arnór skoraði fjögur mörk fyrir Saint Raphael í kvöld en liðið mætir Haukum í seinni leik liðanna í 3. umferð EHF-bikarsins um næstu helgi. Saint Raphael vann fyrri leikinn í Schenker-höllinni, 28-29.

Meistarar Paris Saint-Germain unnu öruggan sjö marka sigur á Créteil á heimavelli, 34-27.

Þetta var níundi sigur PSG í fyrstu 10 umferðunum en liðið er með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar.

Markaskorið dreifðist vel hjá PSG í kvöld. Mikkel Hansen var markahæstur Parísarmanna með sjö mörk en þeir Sergiy Onufriyenko og Nikola Karabatic komu næstir með sex mörk hvor. Róbert Gunnarsson var ekki á meðal markaskorara PSG í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×