Lífið

Ásdís Rán stofnar nýtt fyrirtæki á árinu

Guðný Hrönn skrifar
Ásdís Rán nældi sér í þyrluflugmannspróf á árinu sem var að líða.
Ásdís Rán nældi sér í þyrluflugmannspróf á árinu sem var að líða.
Það gerðist margt á árinu sem var að líða hjá fyrirsætunni og þyrluflugmanninum Ásdísi Rán Gunnarsdóttur en hún kláraði meðal annars þyrluflugmannsnám og kom sér upp heimili á Íslandi. Við taka spennandi tímar en hún er að setja nýtt fyrirtæki á laggirnar.

„Ætli hápunktar ársins 2016 séu ekki þyrluprófið, skólinn og ferðalögin í kringum það. Að hafa náð að klára þyrluflugmanninn og bæta við prófi á tvær aðrar stærri farþegaþyrlur var góð tilfinning. Það var ekki margt annað en skóli og ferðalög um háloftin sem komst að á árinu sem var að líða. Ætli skemmtilegasta verkefnið í þessu öllu saman hafi ekki verið mánuðurinn sem ég varði á Spáni í flugþjálfun. Þar fékk ég ógleymanlega flugþjálfun og lenti í alls konar ævintýrum þegar ég flaug á milli Malaga, Marbella og Madrid. Þar eru fjöllin stórbrotin og náttúran engu lík,“ segir Ásdís.

Ljósmynd út tímaritinu Blæti.Mynd/Saga Sigurðardóttir
Með heimili bæði á Íslandi og í Búlgaríu

Á árinu kom Ásdís sér líka fyrir á Íslandi en undanfarin ár hefur hún búið í Búlgaríu. „Ég kom til Íslands í september til að koma mér upp heimili. Það er búið að ríkja hættuástand í löndunum í kringum Búlgaríu og fjölskylda og vinir hafa ekki allir verið sáttir við að hafa okkur mæðgur þarna einar úti. Þannig að í augnablikinu erum við mæðgur staðsettar í 105 Reykjavík en einnig í Búlgaríu þar sem við eigum heimili líka,“ segir Ásdís sem ferðast mikið á milli Íslands og Búlgaríu en áramótunum varði hún í fjallahéruðum Búlgaríu, nánar tiltekið á Bansko Ski Resort.

En hvað er svo fram undan? „Þar sem efnahagsástandið er töluvert betra núna á Íslandi en fyrir nokkrum árum er bara spennandi að sjá hvort ég geti skapað einhver ný og skemmtileg tækifæri á Íslandi. Ég er byrjuð að vinna í og þróa fyrirtæki sem ég kem til með að opna í febrúar ef allt gengur að óskum, þá hugsanlega bæði á Íslandi og í Búlgaríu,“ segir Ásdís Rán sem hefur tileinkað sér sjálfstæð vinnubrögð í gegnum tíðina. 

„Ég hef reynt að skapa mér tækifæri hvar sem ég er stödd í heiminum og á frekar erfitt með að vera föst of lengi á sama stað, svo mér þykir gott að geta ferðast á milli og unnið í báðum löndum.“ Þess má geta að þegar nær dregur fær almenningur að vita meira um nýtt fyrirtæki Ásdísar Ránar.

Spurð út í áramótaheit þá segir hún þau enn vera í vinnslu. „Þau er ekki alveg komin á hreint en ég ætla allavega að koma mér í betra form. Ég klúðraði því nefnilega algjörlega á meðan á náminu stóð í fyrra og það er kominn tími til að vinna það upp aftur. Annað markmið sem ég hef sett mér er að hrinda þessum hugmyndum mínum í framkvæmd og jafnvel reyna að mennta mig meira. Lengra er ég ekki komin en ég er nokkuð viss um að þetta verði spennandi og gott ár,“ segir Ásdís og bendir svo áhugasömum á að hún er nýkomin á Snapchat og hægt er að fylgjast með henni á þeim miðli undir notandanafninu IcequeenSnap.


Tengdar fréttir

Allt í lagi að vera „sexy“ og stolt af því

Í fyrsta tölublaði tímaritsins Blætis birtist myndaþáttur sem vakið hefur athygli. Fyrirsætan og kaupsýslukonan Ásdís Rán er í aðalhlutverki í myndaþættinum og boðskapurinn er mikilvægur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×