Sport

Ásdís ætlar að bæta tvö Íslandsmet í kvöld og þér er boðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir stefnir á tvö Íslandsmet í kvöld.
Ásdís Hjálmsdóttir stefnir á tvö Íslandsmet í kvöld. vísir/anton
Ásdís Hjálmsdóttir, Ólympíufari og Íslandsmethafi í spjótkasti, ætlar í kvöld að reyna við Íslandsmetin í kúluvarpi og kringlukasti á kastvellinum í Laugardal, en á Facebook-síðu sinni býður hún öllum að koma og fylgjast með.

Ásdís segir enn fremur á Facebook að hún hafi náð tveimur stórum markmiðum í gær. Hún kastaði fyrst kringlunni í fyrsta skipti á ferlinum yfir 50 metra þegar hún þeytti henni 50,63 metra.

Það var ekki það eina sem Ásdís afrekaði í gær því hún tók sig líka til og bætti Íslandsmet kvenna í kúluvarpi innanhúss. Ásdís kastaði kúlunni 15,95 metra en fyrra metið var 34 ára gamalt. Það var 15,64 metrar og var í eigu Guðrúnar Ingólfsdóttur, sett í mars 1982.

„Ég er ótrúlega ánægð en á sama tíma veit ég að það er meira eftir á tankinum. Annað kvöld [í kvöld] mun ég reyna við Íslandsmetin í kringlukasti og kúluvarpi á vellinum þar sem þetta allt byrjaði. Ég er meira en spennt og vonast til að fá mikinn stuðning,“ segir Ásdís.

„Ef þú vilt taka þátt í að hvetja mig til að bæta Íslandsmetin í kúluvarpi og kringlukasti láttu sjá þig á kastvellinum í Laugardal klukkan 17 á morgun,“ segir Ásdís Hjálmsdóttir, en kastvöllurinn er á milli World Class í Laugum og Laugardalsvallar.

Íslandsmetið í kringlukasti, sem Guðrún Ingólfsdóttir á einnig, er 34 ára gamalt en Guðrún kastaði kringlunni 53,86 metra í maí 1982. Ásdís þarf því að bæta sig um rúma þrjá metra í kvöld.

Kúluvarpsmetið er 24 ára gamalt en það setti Guðbjörg Hanna Gylfadóttir í maí 1972 í Starkeville í Bandaríkjunum en metið er 16,33 metrar. Ásdís þarf þar 39 sentimetra bætingu ætli hún að eignast metið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×