Innlent

Ásakanir ganga á víxl vegna hvarfs Tinnu en eigendurnir halda í vonina

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Andrea og Ágúst, eigendur Tinnu, hafa leitað dag og nótt að hundinum sínum,
Andrea og Ágúst, eigendur Tinnu, hafa leitað dag og nótt að hundinum sínum,
Hvorki hefur gengið né rekið í leitinni að hundinum Tinnu sem ekki hefur sést í um tvær vikur. Hópur fólks tók þátt í leitinni en skipulagðri leit hefur nú verið hætt, þó eigendur Tinnu hafi ekki gefið upp vonina og haldi áfram að leita.

Eigendurnir, Andrea Björnsdóttir, og Ágúst Ævar Guðbjörnsson, segjast orðin örvæntingarfull og ráðþrota, en í fyrstu buðu þau 200 þúsund krónur í fundarlaun, og hækkuðu fundarlaunin nokkrum dögum síðar í 300 þúsund krónur.

Hvarf Tinnu hefur vakið mikla athygli, ekki síst í hópnum Hundasamfélaginu sem telur um 22 þúsund manns. Mikill fjöldi fólks hefur lagt hönd á plóg og leitað hundsins, beðið vini og ættingja um að hafa augun opin, drónum hefur verið flogið yfir Reykjanesbæ, þaðan sem Tinna hvarf, og miðlar hafa reynt að spá í spilin, svo fátt eitt sé nefnt.

Sjá einnig:Miðill kveðst hafa séð Tinnu nálægt álverinu

Þrátt fyrir mikla samstöðu fólks innan hundasamfélagsins hefur nokkurt uppnám átt sér þar stað því ásakanir hafa gengið á víxl um að verið sé að beina leitarhópunum á rangar brautir.

Hundurinn Tinna var í pössun hjá konu, sem eigendurnir kynntust á netinu, þegar Tinna týndist og hefur konan vart komist úr húsi vegna ýmissa ásakana í hennar garð, en hún hefur verið nafngreind á netinu, heimilisfang hennar hefur verið gefið upp og myndir hafa verið birtar af húsi hennar. Andrea og Ágúst vísuðu því á bug að leitin sé auglýsingabrella fyrir smáforrit sem þau hafa verið að vinna að og gengur út á að finna týnda hunda, í viðtali við mbl.is.

Sjá einnig:Eigendur örvæntingarfullir og bjóða fundarlaun

Máli Tinnu líkt við Lúkasar-málið

Hundurinn er besti vinur mannsins og því ekki að furða að eigendur leiti allra leiða til þess að fá vini sína aftur í hendurnar, sem þó hefur oftar en ekki leitt til múgæsings. Má þar meðal annars nefna Lúkasar-málið svokallaða, en máli Tinnu hefur að undanförnu verið líkt við það mál, sökum þessa uppþots sem hefur átt sér stað síðustu daga.

Lúkasar-málið kom upp þegar hundurinn Lúkas, af tegundinni Chinese Crested, týndist sumarið 2007. Þá var karlmaður sakaður um að hafa orðið hundinum að bana en hann mátti þola miklar ofsóknir – allt þar til hundurinn loks fannst, heill á húfi, þremur mánuðum eftir að hann týndist. Þá höfðu verið haldnar kertafleytingar og minningarathafnir fyrir Lúkas svo fátt eitt sé nefnt. Meintur dýraníðingur fékk í kjölfarið 200 þúsund krónur í miskabætur.

Rætt var við eigendur Lúkasar í kvöldfréttum Stöðvar 2 eftir að hann fannst á sínum tíma, en innslagið má sjá hér fyrir neðan.

Björgunarsveitir kallaðar út vegna Hunters

Fleiri hundar hafa öðlast landsfrægð á einni nóttu og má þar meðal annars nefna hundinn Hunter sem slapp úr búri sínu á Keflavíkurflugvelli í júní 2014. Umfangsmikil leit var sett af stað; björgunarsveitir voru kallaðar út ásamt því sem lögregla og þyrlan voru fengin til leitarinnar. Þá tók mikill fjöldi fólks á Suðurnesjum þátt í leitinni.

Eigandi hundsins, sænsk kona, vandaði starfsfólki IGS á Keflavíkurflugvelli ekki kveðjurnar og sagði búr Hunters hafa fallið af nokkurra metra hæð af færibandi, ella hefði það aldrei opnast. Hún bauð 200 þúsund krónur í fundarlaun ásamt því sem Icelandair bauð tvo flugmiða til áfangastaða sinna. Hunter fannst að lokum við Þórshöfn í Ósabotnum.

 Kötturinn Nuk sem slapp úr einkaþotu

Það eru ekki bara hundar sem hafa vakið athygli við hvarf þeirra hér á landi því Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur var ræst út eftir að danski kötturinn Nuk strauk úr einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli.

Sjá einnig: Starfsmenn Tollstjóra funduðu vegna Nuk

Eigandinn, Susanne Alsing, lýsti yfir þungum áhyggjum og lofaði 100 þúsund krónum fyrir köttinn. Enginn fékk þó fundarlaunin því Susanne sjálf fann köttinn í flugskýli nokkur hundruð metrum frá flugvélinni.

Þessi listi er langt frá því að vera tæmandi, en fyrrnefnd mál eru þau sem vakið hafa mikla athygli á undanförnum árum, en fleiri mál sem vakið hafa athygli eru að finna í tengdum fréttum hér að neðan.

Eigandi Hunters var afskaplega glaður þegar hundurinn loks fannst.

Tengdar fréttir

Týndi hundinum sínum í kerfinu

Marvin Michelsen, tvítugur Reykvíkingur, hefur undanfarinn mánuð gert mikla leit að hundinum sínum, Mjölni. Ótrúleg atburðarás varð til þess að Mjölnir endaði í höndunum á nýjum eigendum sem Marvin veit ekki hverjir eru.

Hunter fékk loksins að borða | Myndband

"Hann haltrar aðeins. Það er allt og sumt,“ sagði hin sænska Katarina Reinhall eftir að hundurinn hennar Hunter fannst í hólma við Þórshöfn í Ósabotnum í kvöld.

Hundrað kærðir í Lúkasarmálinu

Lögreglan á Akureyri rannsakar nú hvort gefa eigi út ákæru á hendur hundrað einstaklingum sem Helgi Rafn Brynjarsson hefur kært fyrir meiðandi ummæli á netinu. Helgi var á sínum tíma sakaður um að hafa myrt hundinn Lúkas á Akureyri og í kjölfarið rigndi yfir hann hótunum. Lúkas reyndist síðan vera við hestaheilsu.

Lúkasarmálið lifir enn - vill skaðabætur

Lúkasarmálinu svokallaða er langt frá því að vera lokið. Maður sem grunaður var um að hafa orðið hundinum Lúkasi að bana og mátti þola ofsóknir í kjölfarið ætlar að freista þess að sækja skaðabætur frá þeim sem gengu hvað lengst.

Leitar enn að hundinum Mjölni

„Ég gefst ekkert upp, ég held áfram að reyna að finna barnið mitt," segir Marvin Michelsen, tvítugur Reykvíkingur, sem lenti fyrir gráglettni örlaganna í því að hundurinn hans, Mjölnir, var gefinn nýjum eigendum í byrjun júní.

Lúkas lifir í dómsölum - þurfti að endurflytja málið

Fyrsta dómsuppsaga í meiðyrðamáli, sem Helgi Rafn Brynjarsson hefur höfðað, verður á næsta fimmtudag. Lúkasarmálið er eitt undarlegasta fréttamál sem upp hefur komið á síðari árum. Það snérist um hundinn Lúkas sem hvarf sumarið 2007 en af einhverjum ástæðum bitu nokkrir bloggarar það í sig að Helgi Rafn ætti einhvern hlut að máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×