Innlent

Arturs Jarmoszko leitað í fjöru alla leið frá Gróttu að Álftanesi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Formleg leit að Arturi Jarmoszko, sem saknað hefur verið frá mánaðamótum, hófst í gær. Artur sást síðast í eftirlitsmyndavél í Lækjargötu í miðbæ Reykjavíkur. Nokkru síðar tengdist sími hans sendi á Kársnesi en svo slokknaði á símanum.

„Þetta voru hátt í sjötíu manns frá okkur sem voru að leita. Fyrst út frá Kársnesi og svo alla ströndina og svæðið í kringum Öskjuhlíðina. Við erum með báta, dróna, hunda og svo ganga menn fjörur,“ sagði Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við Fréttablaðið í gærkvöld.

Ásamt því að styðjast við dróna, báta, hunda og gönguhópa leitaði þyrla Landhelgisgæslunnar í fjörunni allt frá Gróttu og út á Álftanes.Að sögn Þorsteins höfðu hins vegar engar vísbendingar fundist í gærkvöldi. 

Þá var óljóst hvort leit yrði haldið áfram í dag. Það yrði ákveðið í samvinnu við lögreglu sem nú rannsakar hvarfið. 

Guðmundur Páll Jónson lögreglufulltrúi stýrir rannsókn málsins. Í samtali við fréttastofu í gær sagði hann að leitinni miðaði mjög vel áfram. Lögregla væri að afla upplýsinga. 

Meðal annars fengi hún ábendingar í tölvupóstum. Þá væri lögregla að safna upptökum úr öryggismyndavélum fyrirtækja í vesturbæ Kópavogs. Hann sagði að málið væri ekki rannsakað sem sakamál.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×