Körfubolti

Friðrik Ingi: Robinson er í engu formi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Friðrik Ingi vildi sjá betri frammistöðu hjá sínum mönnum í kvöld.
Friðrik Ingi vildi sjá betri frammistöðu hjá sínum mönnum í kvöld. vísir/ernir
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna í tapinu fyrir Stjörnunni í kvöld. Stjörnumenn voru með undirtökin allan tímann og unnu 11 stiga sigur, 81-92.

„Það vantaði talsvert bit í leik okkar. Við vorum sjálfum okkur verstir fannst mér. Við fengum mikið af galopnum þriggja stiga skotum. Við erum gott þriggja stiga lið en einhverra hluta vegna fóru skotin ekki niður,“ sagði Friðrik Ingi í samtali við Vísi eftir leik.

„En það var ekki það sem fór með leikinn, heldur að við spiluðum mjög veika og slaka vörn. Það vantaði neista og kraft og við vorum einhæfir. Stjarnan gerði vel og spilaði ágætan körfubolta lengstum.“

Friðrik Ingi vildi sjá betra viðhorf og meiri útgeislun hjá sínum mönnum.

„Það vantaði sjálfstraust og karakter í hópinn. Við vorum flatir og það vantaði fleiri leiðtoga. Það eru of margir sem gera þetta á hljóðlegan hátt en stundum verða menn að sýna tennurnar og vera grimmari,“ sagði Friðrik Ingi.

Stanley Robinson, leikmaður Keflavíkur, átti afleitan leik og spilaði aðeins rúmar 20 mínútur. Friðrik Ingi var ekki sáttur með Robinson og segir hann ekki í formi.

„Hann var mjög slakur í dag og gerði ekki mikið fyrir okkur. Mér fannst takturinn vera þess eðlis að ég varð að láta hann sitja talsvert á bekknum,“ sagði Friðrik Ingi.

„Hann er í engu formi, því miður. Hann er búinn að vera hérna í einhverjar vikur og ég sé ekki miklar framfarir á forminu. Ég veit hversu megnugur hann er en hann verður að vera í formi til að geta spilað sinn eðlilega leik. Hann er langt frá því eins og staðan er núna.“

En þarf Robinson að bæta sig mikið til að verða ekki sendur heim?

„Já, ef hann verður ekki mikið betri en þetta. Þetta er harður heimur og yfirleitt er þetta annað hvort bandaríski leikmaðurinn eða þjálfarinn. Það er annað hvort ég eða hann ef töpum mikið fleiri leikjum og frammistaðan verður ekki betri en þetta,“ sagði Friðrik Ingi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×