Lífið

Pyry Soiri kominn í guðatölu á Íslandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Finnsku leikmennirnir umkringja Pyry Soiri eftir að hann skoraði jöfnunarmarkið góða. Ekki sést í andlit Soiri á myndinni.
Finnsku leikmennirnir umkringja Pyry Soiri eftir að hann skoraði jöfnunarmarkið góða. Ekki sést í andlit Soiri á myndinni. Vísir/EPA
Nafn finnska landsliðsmannsins Pyry Soiri er á allra vörum á Íslandi eftir að hann skoraði mark gegn Króötunum sem gæti tryggt Íslendingum farmiða á HM á næsta ári. Aðdáendasíða í nafni hans hefur þegar verið stofnuð á Facebook.

Gleði Íslendinga yfir öruggum 0-3 sigri á Tyrkjum var í algleymingi þegar fréttir bárust af því að Finnar hefðu jafnað í Króatíu á 90. mínútu. Úrslitin þar þýða að Íslendingar tróna á toppi I-riðils fyrir lokaleikinn gegn Kósavíu á mánudag.

Móðir Soiri er finnsk en faðir hans frá Namibíu.Pyry Soiri Fanclub
Ekki löngu eftir að leiknum í Króatíu lauk spratt upp aðdáendasíða í nafni Pyry Soiri á Facebook sem tugir Íslendinga hafa þegar skráð sig í. Þar er Soiri meðal annars kallaður nýjasta þjóðhetja Íslendinga. Annars staðar á félagsmiðlum hafa heyrst köll um að Soiri ætti að fá Fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu lands og þjóðar.

Þessi nýja þjóðhetja Íslendinga er 23 ára gamall miðjumaður sem leikur með Shakhtyor Soligorsk í Hvíta-Rússlandi. Samkvæmt stuttorðri Wikipedia-færslu um Soiri er hann hálfnamibískur og ólst hann að mestu leyti upp í Afríkulandinu.

Ef marka má vefsíðuna Forvo þar sem gerð er grein fyrir finnskum framburði er fornafn Soiri borið fram sem „Puru“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×