Enski boltinn

Fátækleg frammistaða Manchester City á móti efstu liðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero hjá Manchester City hefur skorað 3 af 7 mörkum liðsins á móti efstu sex liðum deildarinnar.
Sergio Aguero hjá Manchester City hefur skorað 3 af 7 mörkum liðsins á móti efstu sex liðum deildarinnar. Vísir/Getty
Manchester City stimplaði sig endanlega út úr titilbaráttunni í gær með tapi á heimavelli á móti nágrönnum sínum í Manchester.

Lærisveinar Manuel Pellegrini hafa enn ekki náð að vinna leik á móti einu af efstu liðum deildarinnar og nú er ekki bara titilinn farinn heldur er Meistaradeildarsætið í hættu með sama áframhaldi.  

Manchester City er nú með 51 stig í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimmtán stigum minna en topplið Leicester en aðeins einu stigi meira en West Ham og Manchester United sem eru sem stendur í 5. og 6. sæti.

Fjögur efstu sætin gefa sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili og því er útlit fyrir harða baráttu hjá City um að halda sér inn í bestu fótboltadeild í heimi.

Manchester City hefur nú þegar spilað alls níu leiki á móti liðunum sem eru með þeim í efstu sex sætunum en það eru lið Leicester City, Tottenham, Arsenal, West Ham og Manchester United.

Uppskera City-liðsins í þessum níu leikjum eru aðeins þrjú stig og enginn einasti sigur. Liðið hefur tapað 6 af þessum 9 leikjum og markatalan er 9 mörk í mínus, 7-16.

Það er einkum heimavöllurinn sem hefur skilað litlu í þessum leikjum enda er City-liðið búið að tapa heimaleikjum sínum á móti Leicester (1-3), Tottenham (1-2), West Ham (1-2) og Manchester United (0-1). Það þýðir núll stig á heimavelli á móti bestu liðum deildarinnar.

Manchester City menn hafa aftur á móti unnið 15 af 21 leik sínum á móti liðunum í 7. til 20. sæti og í þeim leikjum hefur liðið náð í 76 prósent stiga í boði (48 af 63). Einu tapleikirnir hafa verið á móti Liverpool (2) og Stoke (1).

Leikir Manchester City á móti liðum inn á topp 6:

19. september: 1-2 tap á móti West Ham  (heima)

26. september: 1-4 tap á móti Tottenham

25. október: 0-0 jafntefli við Manchester United

21. desember: 1-2 tap á móti Arsenal

29. desember: 0-0 jafntefli við Leicester City

23. janúar: 2-2 jafntefli við West Ham

6. febrúar: 1-3 tap á móti Leicester City (heima)

14. febrúar: 1-2 tap á móti Tottenham (heima)

20. mars: 0-1 tap á móti Manchester United (heima)

Samanlagt: 0 sigar, 3 jafntefli, 6 töp

Heima:  0 sigar, 4 töp

Úti: 0 sigar, 3 jafntefli, 2 töp


Tengdar fréttir

Rashford hetjan í grannaslagnum | Sjáðu markið

Hinn átján ára gamli Marcus Rashford reyndist hetja Manchester United í grannaslagnum gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag, en United vann 0-1 sigur á Etihad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×